Viðskipti innlent

Lítið hreyfist af sérbýlum á íbúðamarkaðinum

Þegar veltutölur af fasteignamarkaði eru skoðaðar kemur glögglega í ljós hversu lítil hreyfing hefur verið með sérbýli á íbúðarmarkaði undanfarna mánuði.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að í Reykjavík voru gerðir 20 kaupsamningar um sérbýli fyrstu 3 mánuði ársins en á sama tímabili fyrir ári síðan voru gerðir 53 kaupsamningar um sérbýli.

Í Kópavogi voru gerðir kaupsamningar um 3 sérbýli á fyrstu þremur mánuðum ársins. Á Seltjarnarnesi hefur engin hreyfing verið á íbúðamarkaði með sérbýli það sem af er þessu ári. Þetta endurspeglar það mikla frost sem nú ríkir á íbúðamarkaði.

Fyrstu mánuði þessa árs hafa umsvifin á íbúðamarkaði verið um það bil 60% minni en á sama tíma fyrir ári síðan. Hafa ber í huga að samdráttur var þegar hafinn á íbúðamarkaði í upphafi síðasta árs. Þegar umsvif á markaði núna eru borin saman við sömu mánuði árið 2007 á meðan uppsveiflan var enn við lýði á íbúðamarkaði kemur í ljós að veltan á fyrstu mánuðum ársins 2009 er aðeins fimmtungur af því sem var þá.

Íbúðaverð hefur nú gefið töluvert eftir það sem af er ári. Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur lækkað um 6% að nafnvirði frá áramótum samkvæmt vístölu íbúðaverðs sem tekin er saman af Fasteignaskrá Íslands. Íbúðaverð sérbýlis hefur dregist saman um 6,5% frá áramótum en verð á fjölbýli hefur dregist saman um 5,8%.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×