Viðskipti innlent

Nettóskuldir þjóðarbúsins nema tæpum 6.000 milljörðum

Erlendar eignir námu 8.389 milljörðum kr. í lok annars ársfjórðungs en skuldir 14.343 milljarða kr. Hrein staða við útlönd var því neikvæð um 5.954 milljarða kr. og jókst um 571 milljarða kr. frá síðasta fjórðungi.

 

Þetta kemur fram í hagtölum Seðlabankans. Þar segir að helsta skýringin á þessari þróun milli ársfjórðunga er aukning skammtímaskulda vegna greiðslna í vanskilum.

 

Greiðslur í vanskilum koma til hækkunar á skammtímaskuldum þar sem þær eru raunverulega fjármagnaðar af skuldareigendum og mælast sem innstreymi fjár í fjármagnsjöfnuði. Vert er að geta þess að inni í tölum um erlendar skuldir eru ennþá eignir og skuldir viðskiptabankanna þriggja sem nú eru í greiðslustöðvun.

 

Áætlaðar eignir þeirra námu 5.673 milljarða kr. og skuldir 11.020 milljarða kr. og neikvæð eignastaða þeirra nam því 5.347 milljarða kr. í lok fjórðungsins. Erlend staða þjóðarbúsins án áhrifa þeirra er því neikvæð sem nemur 606 milljörðum kr.

 

Í tilkynningu frá Seðlabankanum segir m.a. að komið hefur í ljós að skýrslur um beina erlenda fjárfestingu hafa ekki skilað sér sem skyldi í tilfelli mjög stórra og flókinna viðskipta einkaaðila sem áttu sér stað á síðari hluta ársins 2007.

 

Áhrif þessara viðskipta koma aðallega fram undir skuldaliðum, bæði sem lán frá tengdum félögum og sem lán frá erlendum fjárfestum, þar sem þau fólu í sér miklar lántökur innlenda félagsins.

 

Áhrif þessara viðskipta á erlenda skuldastöðu þjóðarbúsins eru um 1.000 milljarða kr. í lok annars ársfjórðungs 2009. Tölur aftur til fjórða ársfjórðungs 2007 hafa einnig verið leiðréttar samkvæmt nýjustu upplýsingum um þessi viðskipti.

 

Mikilvægt er að hafa í huga að um er að ræða lánaskuld við erlenda fjárfesta (móðurfélag) og tengda aðila sem allir eru í einkaeigu undir sömu fyrirtækjasamsteypu.








Tengdar fréttir

Kaupþing og ríkið ná samkomulagi um möguleg kaup á bankanum

Skilanefnd Kaupþings sem starfar fyrir kröfuhafa bankans náði samkomulagi við ríkið í gærkvöld um möguleg kaup á bankanum. Samkvæmt heimildum fréttastofu mun skilanefndin eiga rétt á að kaupa 87% hlut í bankanum fram til 1. nóvember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×