Viðskipti innlent

Skattahækkanir kosta hverja fjölskyldu 130 þúsund í ár

Skattahækkanir á þessu ári verða um 130 þúsund krónur að meðaltali á hverja fjölskyldu, en 270 þúsund á næsta ári en þó ber að geta þess að um 20% af skatttekjunum eru vegna aukinna skatta á háar tekjur sem hefur því ekki áhrif á ráðstöfunartekjur þeirra sem eru með lægri laun.

Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans sem birt hefur ýmsa útreikninga á áhrifum skattaðgerða ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru í vikunni.

Þá er gert ráð fyrir að breytingar á virðisaukaskatti hækki vísitölu neysluverðs um 0,25%.

Í Hagsjánni kemur fram að í upprunalegri áætlun íslenskra stjórnvalda sem lög var til grundvallar samkomulaginu við AGS er gert ráð fyrir að frumtekjur ríkissjóðs verði um 38 milljörðum kr. hærri á næsta ári en á þessu ári og aftur 51 milljarða kr. hærri á árinu 2011.

Skattahækkanirnar sem boðaðar hafa verið og hert eftirlit eiga að skila um 22 milljörðum kr. á heilu ári, þannig að annaðhvort verður að herða enn skattlagningu til að brúa bilið eða ná jöfnuði með auknum niðurskurði og vexti skattstofnanna.

Framhald þeirra aðhaldsaðgerða sem boðaðar eru í frumvarpinu ætti að skila um 35 milljörðum kr. niðurskurði á útgjöldum á næsta ári, sem er nokkurn vegin í takt við þau markmið sem sett voru í áætlun AGS og ríkisins fyrir árið 2010.

Í þeirri áætlun er stefnt að afgangi af rekstri árið 2011 og jöfnuði að viðbættum fjármagnskostnaði árið 2012, en þá ættu tekjur ríkissjóðs að undanskildum vaxtatekjum að vera 38% hærri en á þessu ári og útgjöld að undanskildum vaxtagjöldum 12% lægri en á þessu ári.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×