Viðskipti innlent

Eignaraðild að Íslandsbanka í boði fyrir kröfuhafa Glitnis

Árni Tómasson formaður skilanefndar Glitnis segir að erlendum kröfuhöfum bankans standi til boða eignaraðild að Íslandsbanka gegn kröfum sínum. Fundur hefur verið boðaður með erlendu kröfuhöfunum þann 1. apríl n.k.

„Þetta myndi leysa mörg vandamál fyrir okkur og er að auki hagstæðasti möguleikinn fyrir hina erlendu kröfuhafa til að hámarka verðmæti krafna sinna að okkar mati," segir Árni.

Eins og fram kom í frétt hér á síðunni í morgun áréttaði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra í samtali við Bloomberg að erlendum kröfuhöfum stæði til boða eignarhlutur í nýju bönkunum á móti kröfum sínum. Það væri vilji íslenskra stjórnvalda að fara þá leið í samningum við kröfuhafana.

Árni Tómasson segir að ástandið í fjármálaheiminum almennt sé þannig að ekki væri að búast við miklum áhuga erlendra fjárfesta á að eignast hluti í íslenskum bönkum. En þeir sem tækju slíku boði og væru tilbúnir að bíða og sjá til næstu 3 til 5 árin gætu hugsanlega fengið mun meira fyrir sinn snúð en ella.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×