Viðskipti innlent

Landsbankinn: Eignasafnið rýrnar um 95 milljarða

Lárus Finnbogason, formaður skilanefndar Landsbankans.
Lárus Finnbogason, formaður skilanefndar Landsbankans. MYND/Pjetur
Eignasafn Landsbanks hefur rýrnað um 95 milljarða frá fyrra mati sem gert var í febrúar. Ríkisstjórnin samdi á dögunum um að ábyrgjast 2,35 milljarða Sterlingspunda og 1,329 milljarða Evra eða alls um 736 milljarða  króna. Talið er að um 115 milljarðar, af þessum 736 milljörðum, muni lenda á Íslenska ríkinu vegna Icesave samkomulagsins þegar það verður gert upp.

Þetta kom fram á nýloknum fundi efnahags- og skattanefndar þar sem fulltrúar skilanefndar Landsbankans gerðu grein fyrir stöðu mála. Bent er sérstaklega á það í skýrslu skilanefndar að endalegt virði eigna bankans sé háð mikilli óvissu.

Samkvæmt uppfærða sundurliðaða eignamatinu, sem unnið er sjálfstætt af sérfræðingum bankans, er gert ráð fyrir að um 1.100 milljarðar kr. fáist fyrir eignir upp í kröfur á hendur bankanum. Miðað við að heildarinnlánskröfur, sem eru alls um 1.330 milljarðar kr. og að langstærstum hluta vegna Icesave innlánsreikninganna í Bretlandi og Hollandi, séu forgangskröfur, þýðir þetta að um 83% fást upp í forgangskröfur miðað við stöðuna 30. apríl síðastliðinn.

Heildarvirði eigna Landsbanka Íslands hf. þann 30. apríl 2009 er metið 816 milljarðar kr. Gert er ráð fyrir að við þá fjárhæð bætist 284 milljarða kr. greiðsla frá NBI hf., sem er gagngjald fyrir þær eignir sem fluttar voru yfir til NBI hf. í byrjun október síðastliðnum. Samtals nemur virði eignanna því um 1.100 milljörðum kr. sem áður segir. Þessi fjárhæð er háð mikilli óvissu þar sem samningum, sem nú standa yfir um virði og fyrirkomulag þessara eigna er ekki lokið.

Verðmatið má sjá í heild sinni í meðfylgjandi pdf skjali.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×