Viðskipti innlent

Vextir jöklabréfa lítið tengdir stýrivöxtum

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Seðlabankastjórarnir Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri og Svein Harald Øygard seðlabankastjóri við kynningu á vaxtaákvörðun peninganefndar Seðlabanka Íslands í gærmorgun.
Seðlabankastjórarnir Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri og Svein Harald Øygard seðlabankastjóri við kynningu á vaxtaákvörðun peninganefndar Seðlabanka Íslands í gærmorgun. Fréttablaðið/Pjetur
Vextir svonefndra jöklabréfa eru ekki nema að litlu marki tengdir stýrivöxtum Seðlabankans, að mati seðlabankastjóra. Bankinn lækkaði stýrivexti í gær.

Stýrivextir Seðlabankans voru lækkaðir um 1,5 prósentustig, í 15,5 prósent, á aukavaxtaákvörðunardegi í gær. Formaður peningastefnunefndarinnar, Svein Harald Øygard, seðlabankastjóri kynnti ákvörðunina ásamt Arnóri Sighvatssyni aðstoðarseðlabankastjóra og Þórarni G. Péturssyni aðalhagfræðingi.

Mat peningastefnunefndarinnar er að tæplega níu prósenta veiking á gengi krónunnar, sem orðið hafi frá síðustu vaxtaákvörðun, sé ekki til komin vegna vaxtaákvörðunarinnar.

„Lækkun krónunnar virðist mega rekja til tímabundinna þátta, til dæmis tiltölulega mikilla árstíðabundinna vaxtagreiðslna af krónuskuldabréfum og innstæðum í eigu erlendra aðila. Þótt afgangur hafi verið á vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd ríkir enn mikil óvissa um viðskiptajöfnuðinn í heild. Að auki eru vísbendingar um að farið hafi verið í kringum gjaldeyrishöftin.“

Fram kom í máli seðlabankastjóranna að áhrif stýrivaxta á vaxtagreiðslur vegna jöklabréfa og þar með veikingu krónunnar hafi verið ofmetin. Þannig segir Svein Harald að vextir bréfanna séu ekki nema að litlum hluta tengdir stýrivöxtum. Arnór segir erfitt að meta áhrifin, enda ólíkir vextir á bréfunum. Minni vaxtagreiðslur verði hins vegar næstu tvo mánuði en verið hafi í mars. Nánari greiningu á áhrifum jöklabréfa verður svo að finna í þjóðhagsspá Seðlabankans í maí.

Arnór segir ákvarðanir peningastefnunefndar snúast um trúverðug skref og sýna þurfi bankanum dálitla þolinmæði.

„Við endurmetum aðstæður eftir hverja vaxtaákvörðun og ef þróunin er með þeim hætti sem allt bendir til, að vaxtaákvarðanirnar hafi ekki neikvæð áhrif, þá er það vegvísir að næstu ákvörðun,“ segir hann, en áréttar um leið að engu sé hægt að lofa þar um.

„Þær ráðast af þróun efnahagsmála, stöðugleika gengisins og að verðbólga haldi áfram að hjaðna. En það er rétt að eftir því sem verðbólga hjaðnar hraðar og gengið styrkist meira, þeim mun hraðar getum við lækkað vextina.“

Svein Harald leggur jafnframt áherslu á að horfa þurfi til fleiri þátta sem skýrist á næstu mánuðum. ¿Þeir snúa að endurskipulagningu fjármálakerfisins, áætlun um aðlögun ríkisútgjalda til miðlungslangs tíma og því að fá skýrari mynd af skuldastöðu ríkisins.

Vaxtamunur milli krónunnar og helstu gjaldmiðla ætti, að sögn nefndarinnar, að gefa svigrúm til áframhaldandi hægfara slökunar peningalegs aðhalds. Þá sé verðbólguþrýstingur enn á undanhaldi, sem og væntingar fyrirtækja um verðbólgu. Í máli Þórarins G. Péturssonar kom þó fram að alþjóðlega hafi horfur versnað. Þannig spái OECD 12 prósenta samdrætti í milliríkjaverslun á þessu ári, en meiri samdráttur hafi ekki áður verið mældur. olikr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×