Viðskipti innlent

Lífeyrissjóður kaupir 15% hlut í íslenskum verðbréfum

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Sævar Helgason, framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa
Sævar Helgason, framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa
Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga hefur keypt tæplega 15% hlut í Íslenskum verðbréfum. Þar með eiga þrír lífeyrissjóðir tæplega 45% hlutafjár í félaginu, en hinir sjóðirnir eru Stapi lífeyrissjóður og Lífeyrissjóður Vestfirðinga. Íslensk verðbréf eru meðal elstu starfandi fjármálafyrirtækja á Íslandi en félagið var stofnað árið 1987.

Íslensk verðbréf hafa sérhæft sig í eignastýringu fyrir fagfjárfesta, fyrirtæki og einstaklinga. Þrátt fyrir þær miklu lækkanir sem hafa orðið á mörkuðum hafa eignir í stýringu hjá fyrirtækinu ekki minnkað, enda hafa núverandi viðskiptavinir aukið eignir í stýringu auk þess sem nýir viðskiptavinir hafa bæst við.

„Íslensk verðbréf eru traust og vel rekið fyrirtæki og hefur sýnt góða arðsemi í rekstri þrátt fyrir þann mikla samdrátt sem hefur orðið á fjármálamörkuðum. Við þekkjum fyrirtækið ágætlega eftir farsæl samskipti við það undanfarin ár. Það veitir persónulega þjónustu og boðleiðir eru stuttar. Íslensk verðbréf eru ekki í stöðutöku fyrir eigin reikning og það er að okkar mati mikilvægt. Og við teljum einnig mikilvægt að fyrirtækið greiðir allan hagnað út, sem hefur verið vel ásættanlegur og við teljum að svo verði áfram," segir Jón G. Kristjánsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×