Viðskipti innlent

Helmingur stærstu fyrirtækja landsins ráða í ný störf

Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar.
Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar.
Rúmlega helmingur stærstu fyrirtækja landsins ætlar að ráða í ný störf á þessu ári. Þetta kemur fram í könnun Atvinnuþjónustu Háskólans í Reykjavík. Forstjóri Vinnumálastofnunar segir að nokkur hreyfing sé vinnumarkaði um þessar mundir og um 400 störf í boði.

Könnun Atvinnuþjónustu Háskólans í Reykjavík fór fram á Netinu og var send á stjórnendur 100 stærstu fyrirtækja landsins. Þar kemur fram að tæpur helmingur fyrirtækjanna reiknar með að endurráða í þau störf sem losna á næstu 12 mánuðum.

Rúmur helmingur ætlar að ráða í ný störf á þessu ári og þar af reikna 80% með að ráða í framtíðarstarf og 70% fólk til sumarstarfa. Um 12% þeirra fyrirtækja sem tóku þátt í könnuninni ætla ekki að ráða nýtt fólk til starfa á næstu 12 mánuðum.

Þá kemur fram í könnuninni að mest eftirspurn sé eftir fólki með viðskipta- og verkfræðimenntun.

Um 17.500 manns eru nú á atvinnuleysisskrá samkvæmt tölum vinnumálastofnunar og hefur atvinnulausum fækkað um 500 síðustu daga. Samkvæmt upplýsingum frá vinnumálastofnun skýrist fækkunin þó fyrst og fremst af því að fólk hefur gleymt að staðfesta áframhaldandi atvinnuleit á vef stofnunarinnar.

Gissur Pétursson, forstjóri vinnumálastofnunar, segir að nú séu um 400 störf í boði.

„Það er heilmikið af lausum störfum í boði og nokkur hreyfing á vinnumarkaði þó svo menn ætli að svo sé ekki," segir Gissu.

„Það eru störf af ýmsu tagi. Það eru 400 störf á skrá á vefnum hjá okkur. Þetta eru þjónustustörf og störf í lægri launaskalanum en störf engu að síður og afskaplega mikilvægt að þeim sé sinnt og líka mikilvægt fyrir þann sem er atvinnulaus að hafa eitthvað fyrir stafni."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×