Erlent

Segja töluvert um svik í forsetakosningum Afganistan

Guðjón Helgason skrifar
Fyrstu niðurstöður úr talningu atkvæða verða ekki birtar fyrr en á fimmtudag. Mynd/AP
Fyrstu niðurstöður úr talningu atkvæða verða ekki birtar fyrr en á fimmtudag. Mynd/AP

Afganskir kosningaeftirlitsmenn segja að töluvert hafi verið um svik í forsetakosningunum í Afganistan á fimmtudaginn. Evrópusambandið telur að kosningarnar hafi ekki verið að fullu fjrálsar en að mestu réttlátar.

Í drögum að skýrslu frá afgönskum samtökum, Afghanistan's Free and Fair Election Foundation, sem stofnuð voru til að tryggja að farið væri að reglum í framkvæmd kosninganna, segir að kjósendur hafi verið kúgaðir til að greiða tilteknum frambjóðendum atkvæði og viðbótarkjörseðlum hafi verið troðið í kjörkassa í mörgum kjördæmum.

Hótanir hafi komið frá Talíbönum. Samtökin voru með sjö þúsund eftirlitsmenn að störfum víðsvegar um landið þegar Afganar gengu að kjörborðinu á fimmtudaginn og völdu sér forseta.

Rannsókn eftirlitsmanna hefur einnig leitt í ljós að ólæsir og óskrifandi kjósendur hafi orðið fyrir aðkasti starfsmanna frambjóðenda sem hafi þvingað þá til að kjósa sína menn. Þá hafi starfsmenn kjörstjórna margir verið á mála hjá frambjóðendum.

Kosningaeftirlitsmenn Evrópusambandsins taka undir margt af því sem kemur fram í skýrsludrögunum en segja of snemmt að leggja að fullu mat á það hvort um frjálsar og réttlátar eða sanngjarnar kosningar hafi verið að ræða. Það væri þó mat þeirr að þrátt fyrir að nokkuð hafi verið um minni ofbeldisverk og að kjósendum hafi verið ógnað teljist kosningarnar í heild sinni hafa verið góðar og sanngjarnar og framkvæmd þeirra til sóma fyrir Afgana.

Talning atkvæða frá öllum sex þúsund og tvö hundruð kjörstöðum stendur nú yfir. Talið er að kjörsókn hafi verið á bilinu fjörutíu til fimmtíu prósent sem er töluvert minna en í fyrstu forsetakosningum í landinu 2004 þegar sjötíu prósent Afgana fóru á kjörstað.

Búist er við að bráðabirgða niðurstöður verði birtar á fimmtudaginn í næstu viku en endanleg úrslit liggi fyrir í næsta mánuði.

Ef enginn einn þeirra um þrjátíu frambjóðenda sem sóttust eftir embættinu fær meira en helming atkvæða þarf að kjósa aftur milli tveggja efstu í október.

Hamdi Karzai, sitjandi forseti, og höfuðandstæðingur hans, Abdullah Abdullah, hafa báðir lýst yfir sigri.

Richard Holbrooke, sérlegur sendifulltrúi Bandaríkjastjórnar í þessum heimshluta, segir að bæði Karzai og Abdullah hafi heitið því að þeir muni ekki hvetja til mótmæla ef þeir bíði ósigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×