Viðskipti innlent

Skuldabréf gamla Kaupþings seld á 6-8% af nafnvirði

Skuldabréf gamla Kaupþings ganga kaupum og sölum á markaði erlendis og er verðið á þeim yfirleitt á bilinu 6-8% af nafnverði. Dæmi eru um að verðið hafi farið upp í tæp 10%.

Samkvæmt þessu telja menn að eitthvað muni fást upp í kröfurnar í bankann. Raunar er verðið í samræmi við það sem uppboð á skuldatryggingum bankans sem haldið var í nóvember s.l. sýndi. Niðurstaðan úr uppboði var að kröfuhafarnir reiknuðu með því að fá 6,6% af kröfum sínum í búið

Eins og fram kom í frétt hér á vefnum í síðasta mánuði hafa gjaldfallin skuldabréf Glitnis meir en tvöfaldast í verði erlendis þar sem fjárfestar telja nú að skilanefnd bankans takist að endurheimta meira fé úr eignum bankans en áður var talið.

Samkvæmt frétt á Bloomberg-fréttaveitunni hafa skuldabréfin hingað til verið seld á 6% af nafnverði eða 6 sent fyrir evruna. Verðið hefur nú hækkað í 14 sent eftir að fundur var haldinn með kröfuhöfum bankans í London í síðustu viku á vegum KNG Securities.

Þetta verð á skuldabréfum Glitnis er töluvert hærra en uppboðið á skuldatryggingum þess banka í nóvember sýndi. Samkvæmt uppboðinu reiknuðu menn með að aðeins 3% fengjust upp í kröfurnar á hendur bankanum.

Enginn hreyfing er hinsvegar á skuldabréfum Landsbankans enda reikna kröfuhafar þar ekki með að fá neitt úr kröfum sínum vegna Icesave sem eru forgangskröfur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×