Viðskipti innlent

Tekjur af fjármagnstekjuskatti aukast milli ára

Tekjur ríkissjóðs af fjármagnstekjuskatti hefur aukist á milli ára - þrátt fyrir hrun hlutabréf og banka. Innistæður landsmanna hafa hækkað um fimm hundruð milljarða króna á einu ári.

Eins og fram kom í fréttum okkar í vikunni hafa tekjur ríkissjóðs dregist saman, eins og við mátti búast, vegna minnkandi neyslu almennings og lækkandi tekna fólks og fyrirtækja. Áætlað er að ríkissjóður fái tæpum 67 milljörðum króna minna í kassann á þessu ári en í fyrra

Tekjur ríkissjóðs í fyrra voru nærri 465 milljarðar en áætlaðar tekjur þessa árs eru tæpir 398 milljarðar króna. Munurinn er 66,9 milljarðar.

Strax á fyrstu þremur mánuðum ársins fékk ríkissjóður sex milljörðum minna í kassann en á sama tíma í fyrra. Flestar tölur eru í mínus og samdráttur á nánast öllum sviðum sem ríkið hefur tekjur af, allt frá eins prósents samdrætti upp í rúm níutíu prósent - og því vekur athygli að tekjur ríkissjóðs af fjármagnstekjuskatti hefur hækkað um sex prósent fyrstu þrjá mánuði ársins miðað við sama tíma í fyrra.

Í fjármálaráðuneytinu og Seðlabankanum telja menn skýringuna á þessu vera að gríðarlegur vöxtur hefur verið í innlánum. Margir voru með sparnað sinn inni í peningamarkaðssjóðum og þegar þeir voru gerðir upp jukust innistæður á bankabókum verulega.

Og ef skoðaðar eru tölur af innistæðum fólks og fyrirtækja fyrstu tvo mánuðina í fyrra og svo aftur janúar og febrúar á þessu ári má sjá að venjulegur bankasparnaður hefur snaraukist. Í febrúar 2008 áttu Íslendingar um 1151 milljarð króna inni á bankabók, í febrúar á þessu ári höfðu innistæðurnar hækkað um 500 milljarða og standa nú í um 1651 milljarði króna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×