Viðskipti innlent

Telur óábyrgt að breiða út vantraust

Dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur vísaði á miðvikudag frá kæru erlendra lánastofnana vegna yfirtöku á SPRON.Fréttablaðið/Valli
Dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur vísaði á miðvikudag frá kæru erlendra lánastofnana vegna yfirtöku á SPRON.Fréttablaðið/Valli

 Það er afar óábyrgt af lögmanni erlendra lánastofnana að breiða það út til sinna umbjóðenda að íslenskir dómstólar séu ekki færir um að takast á við flókin álitaefni tengd hruninu, segir Guðmundur Ingvi Sigurðsson héraðsdómslögmaður.

Þar vísar hann í viðtal við lögmann 25 erlendra lánastofnana sem stefndu ríkinu og ríkisstofnunum fyrir yfirtöku á SPRON sem birtist í Fréttablaðinu í gær. Lögmaður erlendu bankanna átaldi þar héraðsdóm fyrir að vísa málinu frá, og sagði það sýna vanmátt íslenskra dómstóla til að fást við mál tengd efnahagshruninu. Guðmundur, sem var lögmaður Seðlabankans í málinu, segir málið aldrei hafa komist á það stig að dómstóllinn hafi átt að úrskurða um þau flóknu álitaefni sem lögmaður stefnenda telji til.

„Lög um meðferð einkamála segja fyrir um það sem koma þarf fram í stefnu. Ég benti dómara á það sem upp á vantaði og dómarinn tók undir það,“ segir Guðmundur. Málið hafi snúist um grundvallaratriði í lögfræði, ekki flókna samninga. Krafan hafi einfaldlega ekki verið rétt sett fram.

„Það er mjög óábyrgt ef lögmaður stefnenda ætlar að halda því fram gagnvart umbjóðendum sínum að dómstólar hér kunni ekki neitt í lögfræði og rýra þannig orðspor dómstóla út á við. Slíkt er ekki til að bæta ásýnd landsins,“ segir Guðmundur. Sömu fjármálastofnanir hafi lánað öðrum íslenskum bönkum, og slíkar yfirlýsingar geti því haft bein áhrif á önnur mál sem þær fjármálastofnanir séu nú að vinna.

Jóhannes Karl Sveinsson, lögmaður ríkisins og Fjármálaeftirlitsins í málinu, tekur undir þessi sjónarmið, og segir ummæli lögmanns stefnenda ómakleg og afar óvenjuleg. Hann tekur fram að hann hafi ekki krafist frávísunar, þótt það hafi verið niðurstaða dómsins.- bj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×