Innlent

Launin duga ekki fyrir vöxtunum af gjaldföllnum lánum

Höskuldur Kári Schram skrifar
Rúmlega eitt þúsund fleiri fjárnámsbeiðnir hafa verið skráðar hjá sýslumannsembætti Reykjavíkur á fyrstu sex mánuðum þessa árs miðað við sama tíma í fyrra. Maður sem er kominn á svartan lista hjá fjármálafyrirtækjum eftir árangurslaust fjárnám, segir að laun hans dugi ekki einu sinni fyrir vöxtunum af gjaldföllnum lánum.

Því er spáð að mörg þúsund heimili muni lenda í verulegum greiðsluerfiðeikum á næstu mánuðum vegna kreppunnar.

Rúmlega 10.500 fjárnámsbeiðnir - vegna gjaldfallinna skulda - bárust sýslumannsembættinu í Reykjavík á fyrstu sex mánuðum þessa árs. Á sama tíma í fyrra voru þær rétt rúmlega 9.500 talsins og fjölgar því um rúmlega eitt þúsund milli ára.

Þá bárust embættinu 17 útburðarbeiðnir á fyrstu sex mánuðum ársins en þær voru 20 á sama tíma í fyrra.

Hörður Ástþórsson rak lítið verktakafyrirtæki sem fór í þrot síðasta haust. Bankinn hirti vinnutækin - og Hörður var skyndilega orðinn atvinnulaus og hafði þar að auki ekki rétt á atvinnuleysisbótum til að þreyja þorrann.

Skuldirnar gerðu því lítið annað en að hlaðast upp.

„Við það að missa atvinnu getur maður ekki haldið neinum upp. Ekki borgað barnsmeðlög ekki séð neinum farborða eða neitt," segir Hörður.

Hörður var atvinnulaus í 11 mánuði þar af 8 án bóta. Fyrr á þessu ári vart gert árangurslaust fjárnám hjá honum vegna meðlagsskulda. Við það lenti hann á svörtum lista hjá fjármálastofnunum.

„Ég fæ ekki debetkort, ég fæ ekki visakort, ég fæ hvergi lán né fyrirgreiðslu í bönkum eða neinu vegna þess að ég er kominn á svartan lista, vegna þess að það var tekið árangurslaust fjárnám hjá mér vegna þess að ég gat ekki borgað barnsmeðlög," segir hann.

Hörður gafst ekki upp ég fékk að lokum vinnu sem húsvörður.

Aðspurður hvort hann sjái fram á að geta borgað upp sínar skuldir í nánustu framtíð svaraði Hörður: „Ekki með þessari gríðarlegu vaxtastefnu sem er á landinu hérna. Það gengur ekki upp. Því vextirnir eru nánast hærri en launin sem ég er með á mánuði."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×