Innlent

Átta ára dreng með hjól gert að yfirgefa strætó í Hamraborg

Bræðrum úr Hafnarfirði, fimmtán og átta ára, var gert að yfirgefa strætisvagn í Hamraborg í Kópavogi þegar þeir voru á leið heim til sín í Setbergið í Hafnarfirði seinni partinn í dag. Ástæða þess er sú að drengirnir voru með hjól í strætisvagninum farið var að þrengja að farþegum. Móðir drengjanna er verulega ósátt við að átta ára barn sé ekki öruggt um að komast á leiðarenda með strætisvagni hafi það hjól meðferðis. Bræðurnir hjóluðu heim úr Hamraborg.

„Hann þurfti að hjóla úr Hamraborginni í Kópavogi upp í Setberg í Hafnarfirði, átta ára gamall," segir Þorbjörg Bergsdóttir, móðir tveggja drengja sem þurftu að yfirgefa leið S1 á leið sinni heim úr Kringlunni fyrr í dag vegna plássleysis en drengirnir höfðu hjól meðferðis. Þorbjörg hafði samband við Strætó Bs. og fékk þar þau svör að hjól hefðu ekki forgang. Henni finnst að frekar eigi að meta hvert tilvik fyrir sig.

„Ég hefði ekki gert neina athugasemd við þetta ef að þetta hefðu verið tveir 15 ára unglingar. En að foreldrar svona ungra barna geti ekki treyst á að börn þeirra komist á leiðarenda ef þau eru með hjól meðferðis finnst mér út í hött," segir hún og bætir við: „Ef að ég væri sjálf að keyra framhjá Hamraborginni og myndi henda strákunum mínum út yrði ég kærð til Barnaverndarnefndar."

Þorbjörg segist hafa spurt þann er hún ræddi við hjá Strætó hvort það væri regla hjá þeim að henda út konum með barnavagna en fengið þau svör að svo væri ekki.

Þorbjörg vill vara aðra foreldra við því að senda svona ung börn með hjólin sín í strætó því það sé augljóslega ekki víst að þau komist á leiðarenda. Hún segir það ekki skipta máli að eldri bróðir hans hafi verið með honum því það breyti ekki því að átta ára barni hafi verið vísað út úr strætó. „Ég mun ekki senda strákana aftur með strætó."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×