Innlent

Ný þjófafæla er nú fáanleg

Haukur Hannesson með þjófafælu sem lætur ekki mikið yfir sér.
Haukur Hannesson með þjófafælu sem lætur ekki mikið yfir sér.
„Þjófafælurnar eru farnar að tínast út,“ segir Haukur Hannesson, framkvæmdastjóri verslunarinnar Glóeyjar sem selur nú nýtt tæki í baráttunni við innbrotsþjófa. Þetta er svokölluð FakeTV þjófafæla, sem gefur frá sér sams konar flöktandi birtu og sjónvarpstæki.

Verslunin hóf sölu á þjófafælunum fyrir um það bil hálfum mánuði. Tilgangur þeirra er að fá innbrotsþjófa til að halda að einhver sé heima að horfa á sjónvarpið og fæla þá þannig frá frekari aðgerðum. Að sögn Hauks er þjófafælan hugsuð sem viðbót við aðrar ráðstafanir til að draga úr hættu á innbrotum.

„Þegar fólk er að heiman er mikilvægt að láta líta út sem einhver sé heima, meðal annars með því að nota tímarofa til að kveikja og slökkva á ljósum,“ segir hann. „Þjófafælan bætir svo um betur og gefur til kynna að einhver sé heima að horfa á sjónvarpið. Áhersla er lögð á að tækið sjálft sjáist ekki utan frá, heldur aðeins sjónvarpsglampinn sem frá því kemur.“

Þjófafælan er með birtuskynjara, sem kveikir sjálfkrafa á tækinu þegar dimmir. Einnig má stilla hana með tímarofa.

- jss



Fleiri fréttir

Sjá meira


×