Viðskipti innlent

Nauðsynleg aðgerð til bjargar Bakkavör

Lýður og Ágúst Guðmundssynir.
Lýður og Ágúst Guðmundssynir.
Ágúst Guðmundsson, forstjóri Bakkavarar, segir að kaup bræðranna á hlut Exista í Bakkavör hafi verið nauðsynleg til að bjarga Bakkavör. Ljóst sé að Exista fari í greiðslustöðvun, nauðasamninga eða jafnvel gjaldþrot á næstu vikum

Bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir hafa keypt tæplega 40% hlut Existu í Bakkavör. Stjórn Exista ákvað að selja þeim hlutinn eftir bankahrunið í fyrra. Bræðurnir fengu lán frá Exista til þess að kaupa hlutinn en þeir eru jafnframt stærstu eigendur þess félags.

Ágúst Guðmundsson segir meðal annars í samtali við fréttastofu að sú gagnrýni sem komið hafi fram í fjölmiðlum vegna málsins sé eingönu til komin vegna vanþekkingar á málinu.

„Við eigum fund með kröfuhöfum á morgun og þegar þeir hafa kynnt sér málið betur verða þeir sáttir við þessa aðgerð," segir Ágúst.

Aðspurður hvort þetta sé gert vegna veikrar stöðu Exista segir Ágúst að ljóst sé að Exista muni fara í greiðslustöðvun, nauðasamninga eða gjaldþrot á næstu vikum eða mánuðum.

„Þessi aðgerð er því eingöngu til þess fallin að eignir Bakkavarar út um allan heim haldist í höndum íslendinga og kröfuhafar hafi aðgang að þeim."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×