Viðskipti innlent

Greiðslur vegna Kaupþings Edge í uppnámi

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar
Greiðslur til þýskra innstæðueigenda á Edge reikningum Kaupþings eru í uppnámi. Breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki gera það að verkum að ekki er hægt að standa við gerða samninga.

Í apríl bárust fréttir af því að skilanefnd Kaupþings hefði tryggt fjármagn til að greiða út innistæður Kaupþing Edge í Þýskalandi að fullu. Um 30.000 sparifjáreigendur áttu innstæður og nema þær rúmlega 55 milljörðum íslenskra króna. Nokkrum dögum eftir þessa tilkynningu voru samþykktar á Alþingi breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt þeim má ekki greiða út neinar kröfur fyrr en búið er að innkalla allar kröfur í þrotabúið.

Slíkt ferli tekur marga mánuði og setur greiðslur til þýsku innstæðueigendanna í uppnám. Búið var að ljúka endurgreiðslum til allra sparifjáreigenda útibúa Kaupþings erlendis og með því hafði skilanefndinni tekist að verjast málssóknum. Þýskir sparifjáreigendur hafa ekki fengið upplýsingar um þetta en á föstudag birtist tilkynning á heimasíðu Kaupþings þar sem fram kemur að þeim muni berast bréf í næstu viku með leiðbeiningum um hvernig þeir geti nálgast fjármuni sína. Ætlun bankans sé að láta ferlið ganga eins hratt og kostur er. Ekki náðist í Gylfa Magnússon, viðskiptaráðherra, í dag.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×