Viðskipti innlent

Erlend staða þjóðarbúsins neikvæð um 3.700 milljarða

Hrein erlend staða þjóðarbúsins var neikvæð um 3.675 milljarðar kr. í lok árs í fyrra og hafði þá versnað um 2.309 milljarða kr. yfir árið. Hreinar skuldir námu 240% af áætlaðri landsframleiðslu í lok árs 2008 samanborið við 106% í lok árs 2007.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að þetta sé afar slæm erlend skuldastaða í sögulegu og alþjóðlegu ljósi en litast af uppgjöri gömlu bankanna sem er enn inni í þessum tölum.

Tölurnar eru litaðar af bankahruninu og þeirri óvissu sem það hefur skapað. Að frátalinni stöðu þessara banka, sem í raun eru í eigu erlendra kröfuhafa, er erlend skuldastaða þjóðarbúsins mun betri en ofangreindar tölur benda til.

Erlendar skuldir þjóðarbúsins námu 13.233 milljörðum kr. í lok árs í fyrra. Meirihluti þessara erlendu skulda eru gömlu bankanna. Þannig voru erlendar skuldir innlánsstofnanna 10.598 milljarðar kr. í lok árs í fyrra eða ríflega 81% skuldanna.

Erlendar eignir innlásstofnanna voru á móti 5.673 milljarðar kr. og mun stór hluti þeirra verða seldur á næstunni upp í kröfur erlendra lánadrottna. Hrein erlend staða innlánsstofnana var neikvæð um 4.925 milljarða kr. í lok síðastliðins árs og skýrir það alla hreina skuldastöðu þjóðarbúsins og gott betur.

Hrein erlend skuldastaða innlánsstofnana ber það með sér að erlendir kröfuhafar gömlu bankanna munu ekki fá nema lítinn hluta af kröfum sínum greiddar. Eignir gömlu bankanna eru ekki taldar vera meiri virði en svo.



Seðlabankinn skuldaði erlendis 371 milljarða kr. í lok síðastliðins árs. Á móti þessu voru eignir bankans, þ.e.a.s. gjaldeyrisforðinn, 429 milljarðar kr. og hrein erlend staða hans því jákvæð um 58 milljarða kr.

Hið opinbera skuldaði hins vegar 701 milljarða kr. erlendis og á móti því voru engar erlendar eignir þannig að hrein skuldastaða hins opinbera var í lok árs sama fjárhæð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×