Viðskipti innlent

Telur að stýrivextir lækki um eitt prósentustig í apríl

Greining Íslandsbanka telur að peningastefnunefnd Seðlabankans muni ákveða að lækka vexti um eitt prósentustig í næstu viku og að stýrivextir bankans verði þá komnir niður í 16%.

Greining fjallar um málið í Morgunkorni sínu en núna er aðeins rétt rúm vika í vaxtaákvörðun Seðlabankans sem verður á miðvikudaginn í næstu viku. Um er að ræða aukavaxtaákvörðunardag en næsti vaxtaákvörðunardagur samkvæmt áætlun bankans er þann 7. maí næstkomandi.

Meðal þess sem styður við vaxtalækkun eru nýjar tölur um verðbólguþróun sem sýna hraða hjöðnun verðbólgu en samkvæmt vísitölu neysluverðs fyrir marsmánuð sem Hagstofan birti í síðustu viku lækkaði neysluverðlag um 0,6% frá fyrri mánuði.

Þá má búast við að bráðabirgðatölur um vöruskipti í mars sýni áframhaldandi jákvæðan viðsnúning utanríkisviðskipta. Auk þess er atvinnuleysi enn að aukast samkvæmt tölum Vinnumálastofnunnar og eftirspurn er að dragast saman í hagkerfinu.

Af nógu er því að taka fyrir peningastefnunefndina þegar kemur að því að rökstyðja vaxtalækkun. Ljóst er þó að þróun á gengi krónunnar frá síðustu vaxtaákvörðun þegar vextir voru lækkaðir um 1 prósentustig gæti sett strik í reikninginn en krónan hefur veikst um 7% frá síðustu vaxtaákvörðun sem var 19. mars gagnvart helstu gjaldmiðlum.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×