Þórunn Helga Jónsdóttir er áfram á skotskónum með brasilíska liðinu Santos en hún skoraði í þriðja leiknum í röð í Paulista-mótinu um helgina þegar Santos vann risasigur á Itariri, 21-0.
Santos hafði ótrúlega yfirburði í leiknum og var komið í 15-0 í hálfleik. Þórunn var ein af níu leikmönnum liðsins sem komst á blað.
Mörkin skoruðu: Ketlen 7, Thaisinha 5; Tali 3, Patricia 1, Raquel 1, Xavi 1, Sabrina 1, Mariana 1 og svo Þórunn.
Santos situr hjá í næstu umferð en liðið er á toppi síns riðils með fullt hús stiga eftir þrjá leiki og markatöluna 48-0. Keppnin heitir "Campeonato Paulista" eða Paulista-mótið og er keppni fyrir félög frá São Paulo héraðinu.