Viðskipti innlent

Starfsmenn SPRON fagna þrátt fyrir óvissu

Stefnt er að því að ljúka sölu á verðbréfaþjónustu SPRON á næstu dögum. Skilanefnd bankans komst í gær að samkomulagi við MP banka um kaup á Netbanka og útibúaneti SPRON. Formaður starfsmannafélags SPRON fagnar þeirri ákvörðun MP banka bjóða að minnsta kosti 45 starfsmönnum SPRON vinnu.

Samkomulag MP banka og skilanefndar SPRON er gert með fyrirvara um samþykki fjármálaeftirlitsins.

Tilboðið hljóðar upp á 800 milljónir króna en MP banki ætlar að reka áfram Netbankann og þrjú útibú undir nafni SPRON. Fram kom í máli Margeirs Péturssonar, stjórnarformanns MP banka í fréttum Stöðvar tvö í gær að markmiðið sé að bjóða að minnsta kosti 45 starfsmönnum SPRON vinnu.

Stjórn Nýja Kaupþings lagðist hins vegar gegn sölunni samkvæmt frétt Morgunblaðsins í dag. Bankinn fékk veð í eignum SPRON þegar hann tók yfir innlán viðskiptavina. Kaupþingsmenn vilja að búið sé að tryggja að allar eignir dugi fyrir innlánum áður eignir verða seldar.

Töluverðar eignir eru þó enn eftir í þrotabúi SPRON. Þar á meðal útlánasafnið sem er um 200 milljarða króna virði. Þá á enn eftir að selja rekstrareiningar á borð við SPRON verðbréf, rekstrarfélag SPRON og kröfukaupaþjónustu bankans.

Átta hafa lýst yfir áhuga á að kaupa SPRON verðbréf en söluviðræður hefjast í dag. Hlynur Jónsson, formaður skilanefndar SPRON, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að stefnt sé að því að leiða þær viðræður til lykta á næstu dögum.

Um 130 manns unnu hjá SPRON áður bankinn var tekinn yfir. Nú lítur út fyrir að 80 starfsmenn fái vinnu hjá Kaupþingi og MP banka.

Ólafur Már Svavarsson, formaður starfsmannafélags SPRON, fagnar þessari niðurstöðu en segir að óvissan sé þó enn mikil.

„Í dag eru allir að fá uppsagnarbréfin sín. Svo í framhaldi af því fáum við að vita hverjir fá störf sín og hverjir þetta eru. En vissulega gleðitíðindi að merki SPRON verði haldið áfram. Mjög mikil gleðitíðindi fyrir okkur,“ sagði Ólafur Már.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×