Viðskipti innlent

Grunur um að milljarða millifærsla Kaupþings tengist Tchenguiz

Fjármálaeftirlitið hefur enn 100 milljarða króna millifærslur Kaupþings inn á erlenda reikninga rétt fyrir hrun bankans til rannsóknar. Grunur leikur á að millifærslurnar tengist eignarhaldsfélagi Robert Tchenguiz, Oscatello.

Stuttu eftir fall Kaupþings greindi fréttastofa Stöðvar 2 frá hundrað milljarða króna millifærslum frá bankanum hér á landi inn á erlenda reikninga. Skilanefnd bankans skoðaði málið og í framhaldinu fór það inn á borð hjá Fjármálaeftirlitinu. Málið var einnig tekið fyrir í viðskiptanefnd Alþingis. Nú rúmu hálfu ári síðar er málið enn til rannsóknar hjá Fjármálaeftirlitinu og hefur ekki verið sent til sérstaks sakskóknara.

Heimildir fréttastofu herma að verið sé að rannsaka hvort að millifærslurnar tengist 107 milljarða króna lánveitingu til Oscatello, einkahlutafélags í eigu Robert Tchenguiz. Erfitt hefur verið að nálgast upplýsingar um málið, m.a. vegna bankaleyndar í öðrum löndum, þ.m.t. Lúxemborg.

Tchenguiz var í umfangsmiklum viðskiptum við Kaupþing. Hann var hluthafi í bankanum í gegnum Exista þar sem hann var stjórnarmaður og tók þátt í ýmsum fjárfestingum með bankanum. Auk þess voru lánveitingar bankans til hans himinháar.

Skilanefnd Kaupþings stefndi Oscatello í febrúar vegna vanefnda á skuldbindingum gagnvart bankanum. Nú hefur skilanefndin falið breska endurskoðunarfyrirtækinu Grant Thornton að innheimta lánin til Tchenguiz en hann hefur að undanförnu selt töluvert af eignum sínum. Deilur standa nú yfir milli skilanefndarinnar og Tchenguiz hvort hann haldi söluhagnaðinum af bresku verslunarkeðjunni Somerfield en Kaupþing telur að bankinn hafi átt veð í keðjunni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×