Viðskipti innlent

Kreditkortaveltan heimila dróst saman um 12%

Kreditkortavelta heimila dróst saman um 12,0% í janúar-ágúst í ár miðað við sömu mánuði í fyrra. Debetkortavelta jókst hins vegar um 6,3% á sama tíma.

Þetta kemur fram í Hagvísum Hagstofunnar sem birtir hafa verið á vefsíðu stofnunarinnar. Þar segir að samtals dróst innlend greiðslukortavelta heimila í janúar-ágúst 2009 saman um 3,4%. Greiðslukortavelta Íslendinga erlendis dróst saman um 25,9% en erlend greiðslukortavelta hérlendis jókst um 73,6% í janúar-ágúst 2009 miðað við sömu mánuði 2008.

Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 17,7% (miðað við meðaltal vísitölunnar í janúar-ágúst), það hefur í för með sér 17,9% raunlækkun á innlendri greiðslukortaveltu.

Merkja má samdráttinn i tveimur öðrum liðum Hagvísa, bílainnflutningi og ferðamannafjölda. Þar segir að nýskráningar bíla í janúar-september voru 2.486 sem er 79,0% fækkun frá janúar- september í fyrra. Síðastliðna 12 mánuði, til loka september, voru nýskráningar bíla 2.946 en það er 82,8% fækkun frá fyrra tólf mánaða tímabili.

Samtals komu 581 þúsund farþegar til landsins um Keflavíkurflugvöll í janúar- september 2009 en þeir voru 745 þúsund í janúar-september 2008. Þetta er 22,0% samdráttur. Síðastliðna 12 mánuði, til loka september, komu 723 þúsund farþegar til landsins og er það 23,4% samdráttur frá 12 mánuðum þar á undan.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×