Viðskipti innlent

Frumtak kaupir hlut í Andersen & Lauth

Frumtak hefur lokið fjórðu fjárfestingu sinni og fest kaup á hlut í Andersen & Lauth ehf. Andersen & Lauth er íslenskt fyrirtæki sem hannar,framleiðir og selur hátískufatnað á alþjóðamarkaði.

Í tilkynningu segir að félagið er með umboðsmenn og söluskrifstofur í tólf löndum og selur hönnun sína í rúmlega 450 búðir í um tuttugu löndum. Félagið var stofnað árið 2006, hóf rekstur 2007 og hefur vöxturinn verið hraður.

„Það er okkur sérstök ánægja að geta fjárfest í íslenskri hönnun" segir dr. Eggert Claessen, framkvæmdastjóri Frumtaks. „Andersen & Lauth byggir á gömlu vörumerki sem á sérstakan stað í hugum margra Íslendinga. Félagið hefur á að skipa úrvals hönnuðum og hefur náð að byggja upp traust viðskiptasambönd bæði í sölu og framleiðslu á erlendum mörkuðum. Þarna eru mikil tækifæri sem nú er hægt að nýta".

„Vöxtur Andersen & Lauth hefur verið hraður og mikil svörun verið við vörumerkinu bæði erlendis og á heimamarkaði. Aðkoma Frumtaks gefur okkur bakland til að fullnýta það tækifæri. Fá skandinavísk fyrirtæki í fatahönnun hafa vaxið jafn hratt og Andersen & Lauth. Það er okkar mat að Frumtak sé með aðkomu sinni einnig að setja sinn gæðastimpil á íslenska hönnun og að mikið tækifæri leynist í hugviti hönnuða á Íslandi" segja Gunnar Hilmarsson og Kolbrún Petrea Gunnarsdóttir stofnendur og hönnuðir Andersen & Lauth.

„Aðkoma Frumtaks er mikil viðurkenning á því starfi sem unnið hefur verið hjá Andersen & Lauth ehf. undanfarin ár. Fjárfestingin mun efla fyrirtækið til muna og gefa okkur kost á hraðari vexti og efla okkur í þeirri vinnu sem er framundan" segir Atli Vilberg Vilhelmsson framkvæmdastjóri Andersen og Lauth.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×