Viðskipti innlent

Eignir BG Holding hugsanlega kyrrsettar

Bresk stjórnvöld gætu kyrrsett eignir BG holding, dótturfélag Baugs í Bretlandi, fái Landsbankinn eignarráð yfir þeim en bankinn er enn undir hryðjuverkalögum þar í landi. Komi þetta til mun eignum verða ráðstafað upp í skuldir bankans í Bretlandi segir formaður skilanefndar Landsbankans.

Fréttastofa leitaði til fjölda lögfræðinga vegna málsins en enginn treysti sér til að koma í viðtal vegna málsins. Allir sögðu þeir þó að málið væri lögfræðilega flókið og jafnvel enn flóknara reikningsdæmi.

Breska hryðjuverkalöggjöfin kveður á um að breskum yfirvöldum er heimilt að kyrrsetja eignir bankans auk þess sem fjármagnsflutningar eru bannaðir frá Bretlandi.

Eftir að skilanefnd Landsbankans gekk að veðum BG Holding og sótti um heimild fyrir greiðslustöðvun dótturfélagsins í byrjun febrúar er ekki hægt að ráðstafa eignunum án samráðs við bankann.

Landsbankinn er þó ekki orðinn beinn eigandi bréfanna en að óbreyttu mun bankinn taka yfir hlutafjáreign Baugs í breskum verslunum þegar greiðslustöðvuninni lýkur.

Þær verslanir sem um ræðir eru t.a.m. Hamleys, Iceland, House of Frazer og Goldsmiths.

Þeir lögfræðingar sem fréttastofa ræddi við voru sammála um að með aðgerðum skilanefndarinnar myndu eignir BG holding í Bretlandi falla undir hryðjuverkalöggjöfina.

Skilanefndin hefur gefið það út að ekki sé stefnt að sölu þessara hluta í nánustu framtíð en komi til þess þá eru fjármagnsflutningar til Íslands bannaðir samkvæmt löggjöfinni.

Lárus Finnbogason, formaður skilanefndar Landsbanka Íslands hf., telur enga hættu á að bresk yfirvöld kyrrsetji eignir BG holding.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×