Viðskipti innlent

Hópmálssókn gegn gömlu bönkunum

Lögmannastofa í Reykjavík undirbýr hópmálssókn á hendur gömlu bönkunum. Tugir einstaklinga hafa þegar lýst sig reiðubúna til að taka þátt í málssókn þar sem meðal annars verður sótt á grundvelli þess að eigendur bankanna hafi markvisst valdið viðskiptavinum sínum tjóni með því að fella krónuna.

Lögmenn Laugardal hafa síðan í nóvember undirbúið hópmálssókn gegn gömlu bönkunum fyrir hönd fólks sem er illa statt með skuldir sínar eftir verðbólguna og gengishrun krónunnar. Tugir manna hafa þegar haft samband við stofuna og boðist til að leggja sín mál í púkkið.

Raunar verður ekki hægt að fara í hópmálssókn eins og þekkt er til að mynda á Norðurlöndunum. Málsvarar neytenda hafa árum saman barist árangurslaust fyrir lögum um hópmálsókn. Eftir olíusamráðið þurfti því að fara í prófmál fyrir einn húsasmið á Húsavík til að sækja skaðabætur vegna samráðsins, í stað þess að sækja eitt mál fyrir allan þann hóp sem leitaði til Neytendasamtakanna með kvittanir um viðskipti við olíufélögin.

Og nú er í bígerð hópmálssókn gegn gömlu bönkunum - sem yrði þó með sama sniði, það er að sótt verða prófmál, jafnvel tíu til fimmtán.

Lögmenn Laugardal stefna að því að setja í loftið vefsíðu í næstu viku, þar sem fólk getur aflað sér upplýsinga um fyrirhuguð dómsmál.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×