Skoðun

Er þetta nokkuð svo slæmt?

Kjartan Broddi Broddason skrifar

Skuldbinding Tryggingarsjóðs innistæðueigenda vegna ICESAVE er um 720 milljarðar króna að núvirði eða um 4 milljarðar evra (þetta eru grófar tölur).

Gefum okkur að við getum selt eignasafn Landsbankans í Bretlandi/Hollandi í dag fyrir 2,4 milljarða evra eða fyrir um 60% af þeirri ríkisábyrgð sem þjóðin er að taka á sig sem er umtalsvert lægri upphæð en þau möt um heimtur sem liggja fyrir. Notum þann gjaldeyri til að losa okkur við stóran hluta þeirra erlendu skammtímafjárfesta sem hér eru - m.v. gengi á evru 200-220 kr. Þá eignumst við íslenskar krónur sem bera munu - segjum 5,5% - nafnvexti næstu sjö ár.

Gefum okkur einnig að gengisvísitala krónunnar styrkist um ríflega 20% á næstu sjö árum og gengi evru á móti íslenskri krónu verði um 140 að þeim tíma liðnum (langt í frá óraunhæft - sérstaklega ef viðræður um Evrópusambandsaðild verða komnar eitthvað áleiðis). Þá mun lítið sem ekkert falla á innlenda skattborgara vegna þessara skuldbindinga.

Gjaldeyrishöftum væri þá einnig hægt að aflétta strax þar sem óþolinmóðir fjármunir væru að megninu til farnir úr landi og stýrivexti mætti lækka umtalsvert.

Eina vandamálið sem þessu fylgir er hvernig við eigum að ná okkur í vel á sjötta milljarð evra að sjö árum liðnum - krónurnar komum við til með að eiga - en verði aðild að Evrópusambandinu þá innan seilingar verður hugsanlega búið að festa gengi krónu á móti evru og innlendar krónur orðnar að ígildi evra. Svona raunhæfa mynd er líka alveg hægt að draga upp - en framkvæmdin krefst að hægt sé að selja eignasafnið strax á „tombóluverði". Er eitthvað sem kemur í veg fyrir það?

Höfundur er hagfræðingur.






Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×