Viðskipti innlent

400 milljóna skattur til Samtaka iðnaðarins

Í Samtökum iðnaðarins (SI) mætast stórfyrirtæki eins og Actavis, Alcan og Alcoa annars vegar og hins vegar hvers konar smáfyrirtæki sem stunda iðnaðarstarfsemi. 0,08 prósent af veltu iðnfyrirtækja eru innheimt sem skattur og skilað til SI.Fréttablaðið/Stefán karlsson
Í Samtökum iðnaðarins (SI) mætast stórfyrirtæki eins og Actavis, Alcan og Alcoa annars vegar og hins vegar hvers konar smáfyrirtæki sem stunda iðnaðarstarfsemi. 0,08 prósent af veltu iðnfyrirtækja eru innheimt sem skattur og skilað til SI.Fréttablaðið/Stefán karlsson

Ríkissjóður leggur fram 400 milljónir króna í ár til að standa undir rekstri Samtaka iðnaðarins (SI) með svokölluðu iðnaðarmálagjaldi. Gjaldið samsvarar 0,08 prósentum af veltu allra iðnaðarfyrirtækja í landinu.

Fyrirtækjum sem stunda iðnrekstur í landinu er skylt samkvæmt lögum að greiða gjaldið eins og hvern annan skatt. Ríkisfyrirtæki, álver og Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga hafa þó verið undanþegin gjaldinu. Af því sem innheimtist renna 95 prósent í gegnum ríkissjóð til SI. Ríkissjóður heldur eftir fimm prósentum af því sem innheimtist og stendur þannig undir kostnaði við innheimtuna. SI eru hagsmunasamtök og hafa meðal annars að markmiði að hafa áhrif á stefnu stjórnvalda.

Sum iðnfyrirtæki kjósa að standa utan samtakanna en greiða gjaldið engu að síður. Félagsgjald er einnig innheimt af félögum. Félagsgjöld skiluðu SI 122 milljóna króna tekjum á síðasta ári, að sögn Jóns Steindórs Valdimarssonar, framkvæmdastjóra samtakanna.

Iðnaðarmálagjald hefur verið lagt á frá 1975. Núgildandi lög eru frá 1993. Undanfarin tvö ár hefur iðnaðarmálagjald skilað mun meiri tekjum en áætlun fjárlaga gerði ráð fyrir. 2008 var áætlað að gjaldið skilaði um 260 milljónum króna. Þegar upp var staðið kom í ljós að ríkið hafði innheimt 502 milljónir króna, eða nær tvöfalt meira en áætlað var. Af því áttu um 476 milljónir að renna í gegnum ríkissjóð til SI.

Með sama hætti er nú ljóst að iðnaðurinn hefur greitt mun hærra iðnaðarmálagjald árið 2009 en áætlun fjárlaga gerði ráð fyrir, þótt samdrátturinn sé talsverður frá 2008. Þetta sést í frumvarpi til fjáraukalaga 2009, sem Alþingi hefur til meðferðar. Þar kemur fram að iðnaðarmálagjald mun skila 420 milljónum króna, eða 120 milljónum króna meira en fjárlög áætluðu. Af því munu Samtök iðnaðarins fá 400 milljónir.

Í fjárlagafrumvarpi 2010 var gert ráð fyrir 300 milljóna króna tekjum af iðnaðarmálagjaldi. Í breytingartillögu sem lögð var fram á laugardaginn var tekjuáætlunin hækkuð í 420 milljónir á árinu 2010. peturg@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×