Innlent

Embættismenn sem draga lappirnar hindra samstarf

Stjórnarráðið Forsætisráðherra segist ekki fá varist þeirri hugsun að mál hefðu getað þróast með öðrum hætti síðastliðið haust ef ýmsar ákvarðanir sem tengjast hruninu hefðu verið lagðar fyrir á ríkisstjórnarfundi.
Stjórnarráðið Forsætisráðherra segist ekki fá varist þeirri hugsun að mál hefðu getað þróast með öðrum hætti síðastliðið haust ef ýmsar ákvarðanir sem tengjast hruninu hefðu verið lagðar fyrir á ríkisstjórnarfundi.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra vill láta skoða kosti og galla þess að ríkisstjórn Ísland verði fjölskipað stjórnvald, eins og til dæmis í Svíþjóð. Þá bæri ríkisstjórnin sameiginlega ábyrgð á málum, sem lögð eru fyrir Alþingi, og hefði sameiginleg yfirráð yfir stjórnsýslunni í stað þess að einn ráðherra beri ábyrgð á hverju máli eins og nú er.

Í fyrirspurnartíma á Alþingi í gær tók Jóhanna undir með Þórunni Sveinbjarnardóttur, þingmanni Samfylkingarinnar, sem sagði að hrunið síðastliðið haust hefði afhjúpað veikleika í stjórnsýslunni hér á landi. Þar hafi risið upp ókleifir múrar sem geri samvinnu milli ráðuneyta oft seinlega og erfiða.

„Það þarf ekki annað en einn embættismann, sem dregur lappirnar, til að koma í veg fyrir skilvirkt samstarf,“ sagði Þórunn.

Jóhanna sagðist ekki geta varist þeirri hugsun að mál hefðu getað þróast með öðrum hætti síðastliðið haust ef ýmsar ákvarðanir sem snertu hrunið hefðu verið lagðar fyrir ríkisstjórn til sameiginlegrar umræðu og ákvörðunar. Hún sagðist hafa skipað nefnd til að endurskoða starfshætti ríkis­stjórnar og fyrirkomulag ríkisstjórnarfunda. Þeirri nefnd verði falið að skoða kosti þess og galla að ríkisstjórn Íslands verði fjölskipað stjórnvald.- pg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×