Viðskipti innlent

MP Banki: 860 milljónir í hagnað

Styrmir Þór Bragason, forstjóri MP Banka.
Styrmir Þór Bragason, forstjóri MP Banka.

MP Banki hf. skilaði 860 milljóna króna hagnaði eftir skatta á árinu 2008, samanborið við 1.780 milljóna króna hagnað á árinu 2007. Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að skýringa á minni hagnaði sé að leita í afskriftum í kjölfar falls stóru íslensku bankanna og gjaldþrots Lehman Brothers. Þetta kemur fram í ársreikningi bankans.

Þá segir að samtals hafi bankinn lagt til hliðar 2.248 milljónir króna vegna afskrifta og telur hann sig þar með hafa mætt allri afskriftaþörf sem leiddi af bankahruninu. „Hagnaðurinn jafngildir 14,7% ávöxtun eigin fjár á ársgrundvelli," segir einnig um leið og bent er á að eigið fé nemi 6.624 milljónum króna og eiginfjárhlutfall bankans (CAD) sé 22,3 prósent.

„Meira en helmingur af eignum bankans var í lausu fé, innstæðum hjá Seðlabanka Íslands og í ríkistryggðum skuldabréfum. MP Banki fékk viðskiptabankaleyfi í lok starfsársins og í árslok námu innlán þriðjungi af fjármögnun bankans en það hlutfall er í dag rúmlega 40%," segir einnig.

Gengishagnaðir bankans jókst verulega á árinu og nam hann 1.825 m.kr. í árslok 2008 samanborið við 159 m.kr. í árslok 2007. Hagnaðurinn er sagður skýrast aðallega af gengishagnaði af stöðutöku í ríkistryggðum skuldabréfum. Í uppgjörinu má einnig sjá verulega niðurfærslu á fyrirtækjaskuldabréfaeign bankans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×