Innlent

Eignir Baldurs Guðlaugssonar kyrrsettar

Sérstakur saksóknari hefur krafist kyrrsetningar á eignum Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, í tengslum við rannsókn á meintum innherjaviðskiptum Baldurs þegar hann seldi hlutabréf sín í Landsbankanum rétt fyrir hrun. Þetta er í fyrsta sinn sem sérstakur saksóknari beitir slíkri heimild.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur embætti sérstaks saksóknara nú fengið kyrrsetningu í eignum Baldurs Guðlaugssonar vegna söluandvirðis hlutabréfanna í Landsbankanum sem Baldur Guðlaugsson seldi hinn 17. september 2008, en hann seldi þá hlutabréf í bankanum fyrir á annað hundrað milljónir króna. Um er að ræða kyrrsetningu á sömu fjárhæð og Baldur seldi fyrir.

Grunur leikur á að Baldur hafi verið innherji í skilningi laga um verðbréfaviðskipti þegar hann seldi hlutabréfin, en innherjasvik geta varðað allt að sex ára fangelsi.

Rúmum tveimur vikum áður en Baldur seldi bréfin, hinn 2. september 2008, sat hann fund í Lundúnum með Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands. Þar var flutningur á Icesave-reikningum Landsbankans frá útibúi til dótturfélags til umfjöllunar og Baldur var þar sem fulltrúi fjármálaráðherra.

Heimildin sem embætti sérstaks saksóknara beitti til að kyrrsetja eignir Baldurs kemur fram í lögum um meðferð sakamála, en heimildinni má beita ef hætta þykir á að eignum verði ella skotið undan eða þær glatist eða rýrni.

Nokkrum vikum eftir bankahrunið hóf FME rannsókn á sölu hlutabréfanna. Miðaði athugun eftirlitsins að því að skera úr um hvort Baldur hefði búið yfir innherjaupplýsingum um stöðu Landsbankans, meðal annars í krafti stöðu sinnar sem ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, þegar hann seldi bréfin. Það var síðan niðurstaða FME að kæra málið til sérstaks saksóknara.

Baldur hefur sjálfur ítrekað neitað því að hafa haft aðrar upplýsingar um rekstur Landsbankans en þær sem voru aðgengilegar almenningi þegar hann seldi bréfin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×