Viðskipti innlent

Ólafur Ragnar enn í vörn fyrir útrásina

Mynd/Vilhelm.
Mynd/Vilhelm.

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands segir að íslensku bankarnir sem hrundu síðasta haust hafi ekki brotið neinar reglur. Þetta kom, fram í viðtali sem útvarpsstöð Bloomberg fréttaveitunnar tók við Ólaf Ragnar í New York í dag.

Ólafur Ragnar tekur þátt í pallborðsumræðum á heimsþingi Clinton stofnunarinnar í New York á föstudag. Bill Clinton stofnaði til þingsins þegar hann lét af embætti forseta Bandaríkjanna.

„Hvað sem annars er sagt um íslensku bankana, störfuðu þeir innan regluverks Evrópu um banka- og fjármálastarfsemi," sagði Ólafur Ragnar í viðtalinu við Bloomberg. Í frétt um málið á vefsíðu fréttaveitunnar er tekið fram að forsetinn viðhafði þessi orð þrátt fyrir að bankarnir sæti nú rannsóknum af hálfu eftirlitsaðila og annarra.

Samkvæmt orðum Ólafs Ragnars féllu Kaupþing, Landsbankinn og Glitnir að hluta til vegna skorts á regluverki sem virkaði yfir landamæri. „Þversögnin er að við höfum pan-evrópskan fjármálamarkað en við höfðum ekki pan-evrópskt regluverk og stjórnun," segir Ólafur Ragnar.

Það kom ennfremur fram í máli forsetans að hluti af heimsókn hans til New York væri að fræða alþjóðasamfélagið um það sem Ísland hefði lært með ærnum kostnaði.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×