Viðskipti innlent

Höftum á innstreymi erlends gjaldeyris verður aflétt á skömmum tíma

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Höftum af öllu innstreymi erlends gjaldeyris verður aflétt á tiltölulega skömmum tíma í fyrsta áfanga í afnámi gjaldeyrishaftanna. Þetta kom fram á kynningarfundi í Seðlabanka Íslands í dag vegna afnáms haftanna. Í öðrum áfanga áætlunarinnar verður greint á milli reikninga, eignaflokka og viðskipta sem létta ber höftum af snemma í ferlinu og annarra sem áfram sæta takmörkunum um lengri tíma.

„Þessum síðarnefnda flokki - svokölluðum „heftum reikningum" - munu tilheyra fjáreignir sem taldar eru miklar líkur á að verði fluttar úr landi, en það gæti grafið undan skilvirkni kerfisins ef höftum á þær yrði aflétt of snemma. Annar áfangi hefst með því að höftum á útstreymi vegna tiltekinna reikninga, eignaflokka og viðskipta með sem fjarlægasta gjalddaga verður smámsaman aflétt eftir því sem gjaldeyrisforðinn styrkist, horfur um greiðslujöfnuð batna og traust á innlenda fjármálakerfið eykst. Þegar höftum á viðskipti með þessa reikninga og eignir hefur verið aflétt og að því gefnu að nægur gjaldeyrisforði sé til staðar verður hafist handa við að létta höftum af næsta flokki reikninga og eigna," segir í kynningu Seðlabankans á fundinum.

Þá kemur fram að notkun íslensku krónunnar í alþjóðaviðskiptum verður áfram háð takmörkunum þar til afnám gjaldeyrishaftanna kemst á lokastig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×