Viðskipti innlent

Spáir 11,4% ársverðbólgu í júní

Greining Íslandsbanka telur að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,7% í júní. Gangi spáin eftir mun 12 mánaða verðbólga mælast 11,4%, en í maí mældist verðbólgan 11,6%. Hagstofa Íslands birtir vísitölu neysluverðs í júní þann 24. júní næstkomandi.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að hækkun opinberra gjalda á áfengi og tóbak, verðhækkun á eldsneyti og áhrif af gengislækkun krónu undanfarna mánuði eru helstu áhrifaþættir í hækkun VNV nú en lækkun húsnæðisverðs vegur á móti.

Greiningin telur að nýleg hækkun á opinberum gjöldum á áfengi og tóbak leiði til 0,23% hækkunar á VNV, en hækkun eldsneytisgjalda kemur hins vegar væntanlega að mestu leyti fram í júlímælingu vísitölunnar. Þrátt fyrir þann gálgafrest hefur eldsneyti hækkað talsvert frá miðjum maí vegna gengislækkunar krónu og hækkunar á heimsmarkaðsverði. Mun sú verðhækkun valda 0,25% hækkun á VNV nú að mati greiningarinnar.

Gengislækkun krónu þokar einnig ýmsum öðrum innflutningsdrifnum undirliðum VNV upp á við, enda hefur evran hækkað um 9% frá aprílbyrjun og dollarinn um rúm 8% á sama tíma.

Hins vegar er gert ráð fyrir að húsnæðisliður vísitölunnar vegi til 0,2% lækkunar á VNV enda vísbendingar um að verð fari nú lækkandi á íbúðamarkaði þrátt fyrir einkennilega hækkun húsnæðisliðar VNV í maí.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×