Viðskipti innlent

Kaupþingi í Lúx skipt upp í tvö félög

Kaupþingi í Lúxemborg var skipt upp í tvö félög við endurskipulagningu bankans. Öll lán til viðskiptavina, m.a. íslenskra útrásarvíkinga sem voru hluthafar í bankanum sjálfum, fóru inn í nýtt félag sem nú er stýrt af kröfuhöfum gamla bankans sem reyna hvað þeir geta til að hámarka endurheimtur sínar.

Í júlí sl. samþykktu helstu lánadrottnar Kaupþings í Lúxemborg áætlun um endurskipulagningu bankans. Fréttir bárust af því að Rowland fjölskyldan hefði tekið bankann yfir, lagt til nýtt hlutafé og efnahagsreikningurinn núllstilltur. Gögn sem fréttastofa hefur undir höndum sýna aftur á móti að bankanum var skipt upp í tvennt - í Banq Havilland og fyrirtæki sem er kallað verðbréfafyrirtæki.

Ekki ósvipað og gert var hér á landi þegar bönkunum var skipt upp í gömlu og nýju bankana. Munurinn er þó að verðbréfafyrirtækið er ekki þrotabú heldur félag sem er starfandi. Inn í það fóru öll lán, verðbréf, skuldir vegna gjaldeyrisviðskipta auk innstæðu að lágmarki 7 milljarða króna. Eigendur þessa verðbréfafyrirtækis eru helstu lánadrottnar Kaupþings í Lúxemborg sem eru um 30 bankar sem flestir eru staðsettir í Benelux löndunum og Þýskalandi.

Þetta þýðir að öll lán sem Kaupþing í Lúxemborg veitti íslenskum útrásarvíkingum og helstu viðskiptavinum sínum eru nú komin inn í nýtt félag sem kröfuhafar stýra. Í lánabók Kaupþings má sjá að lán til helstu viðskiptavina bankans nema um 360 milljörðum íslenskra króna, í þeim hópi eru m.a. Skúli Þorvaldsson, Bakkabræður, Ólafur Ólafsson og Kevin Stanford.

Samkvæmt heimildum fréttastofu sýna kröfuhafar mikla hörku við innheimtu og veigra sér ekki við að fara dómstólaleiðina. Það er Banq Havilland sem sér um innheimtuna fyrir kröfuhafa.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×