Viðskipti innlent

Skoða afskriftir skulda hjá fyrirtækjum í samkeppni

Efnahagsmál Samkeppniseftirlitið hefur nú til skoðunar nokkrar ábendingar vegna afskrifta ríkis­bankanna á skuldum fyrirtækja, og annarrar ákvarðanatöku þeirra um framtíð fyrirtækja. Forsvarsmenn fyrirtækja hafa áhyggjur af því að keppinautar þeirra fái óeðlilegt forskot með afskriftum eða öðrum aðgerðum.

Mikilvægt er að bankarnir hafi samkeppnissjónarmið til hliðsjónar þegar þeir reyna að greiða úr vanda fyrirtækja, segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins. Einnig verði að horfa til þeirra hagsmuna sem neytendur geti haft af því að fyrirtæki í samkeppni geti starfað áfram og þeim fækki ekki.

Almenna reglan er sú að bankarnir reyni að hámarka verðmætin úr þeim félögum sem falla í þeirra hendur, segir Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra. Þeir verði þó að virða tilmæli Samkeppniseftirlitsins frá því síðasta haust um að hafa samkeppnisaðstæður til hliðsjónar í hverju tilviki.

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans, vakti athygli á fyrirhuguðum 30 milljarða króna afskriftum hjá Teymi í Fréttablaðinu á laugar­dag. Teymi á og rekur Vodafone, sem er í samkeppni við Símann.

Gylfi segir forsvarsmenn ýmissa fyrirtækja hafa vakið athygli sína á sambærilegum málum undanfarið. Hann vill þó ekki nefna hvaða fyrirtæki eigi þar í hlut.

Það er skiljanlegt að samkeppnis­aðilar séu ósáttir við að skuldir keppinautarins séu felldar niður, segir Gylfi. Bankar verði að gæta sín á því að fyrirtæki fái ekki óeðlilega fyrirgreiðslu, eða að ekki séu felldar niður meiri skuldir en nauðsynlegt sé til að fyrirtæki geti haldið áfram starfsemi.

Í sumum tilvikum sé þó engum greiði gerður með því að setja fyrirtæki í þrot og gefa einhverjum kost á því að kaupa reksturinn ódýrt úr þrotabúi.

Gylfi segir mikilvægt fyrir bankana að fara varlega við afskriftir, en sama hvaða leið bankarnir fari verði alltaf einhverjir ósáttir við málalok.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir áhyggjur af málum sem þessum hafa komið upp þegar í upphafi bankahrunsins.

Nú er svo komið að búast má við talsverðri hrinu slíkra mála til bankanna á næstunni, segir Vilhjálmur. Þá sé mikilvægasta sjónar­miðið að bjarga verðmætum, þó að auðvitað verði einnig að hafa samkeppnissjónarmiðin í huga.- bj








Fleiri fréttir

Sjá meira


×