Erlent

Karzai virðist hafa unnið í Afganistan

Óli Tynes skrifar
Kjörstjórn Afganistans hefur sent frá sér nýjar tölur sem benda til þess að Hamid Karzai forseti hafi unnið sigur í forsetakosningunum sem haldnar voru tuttugasta ágúst síðastliðinn. Búið er að telja níutíu og þrjú prósent atkvæða.

Samkvæmt tölum kjörstjórnarinnar fékk Karzai fimmtíu og fjögur prósent en helsti keppinautur hans Abdullah Abdullah ekki nema tuttugu og átta prósent.

Ætlunin var að birta úrslitatölurnar fyrir tíu dögum en vegna ásakana um svik hefur það tafist von úr viti. Talið er að vikur geti liðið áður en skorið verður úr um endanlegan sigurvegara.

Karzai þarf að ná að minnsta kosti fimmtíu prósentum atkvæða. Annars verður að kjósa á ný milli hans og Abdullahs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×