Viðskipti innlent

Gullforði Seðlabankans hækkar um milljarð á árinu

Gullforði Seðlabankans hefur hækkað um milljarð kr. það sem af er árinu. Forðinn stóð í rúmum 6,6 milljörðum kr. um síðustu áramót en var kominn í rúma 7,6 milljarða kr. í lok ágúst.

 

Tvennt liggur að baki þessari hækkun. Annarsvegar hefur heimsmarkaðsverð á gulli stöðugt hækkað þetta árið og komst í 1.000 dollara fyrir únsuna á mörkuðum í Asíu í morgun. Hinsvegar er verð á gulli mælt í dollurum og hefur veiking krónunnar gagnvart dollar því einnig stuðlað að hækkun á andvirði gullforðans.

 

Í frétt um gullverðið á Reuters í morgun segir að hækkanir á því undanfarið bendi til að fjárfestar hafi ekki mikla trú á því að sú uppsveifla sem verið hefur í heiminum haldi til lengri tíma. Þar að auki koma áhyggjur af því að verðbólga sé að aukast.

 

Þá er einnig nefnt til sögunnar að svo virðist sem hækkanir á annarri hrávöru hafi náð hámarki í augnablikinu en þegar slíkt gerist færa menn oft fjármuni sína yfir í gull.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×