Innlent

Ekki mannvonska sem ræður lokun öldrunarheimilis

Hafsteinn Gunnar Hauksson365 skrifar
Heilbrigðisstofnun Austurlands, HSA.
Heilbrigðisstofnun Austurlands, HSA.
„Það er ekki mannvonska sem ræður," segir Einar Rafn Haraldsson, forstjóri Heilbrigðisstofnun Austurlands, um lokun öldrunarheimilisins á Djúpavogi í gær. Eins og Vísir greindi frá var aðstandendum vistmanna greint frá því að þeir gætu ekki snúið aftur á heimilið eftir sumarlokun þess. Stofnuninni yrði tafarlaust lokað vegna fjárskorts.

„Það er enginn glaður með þessa niðurstöðu, hvorki við né aðrir," segir Einar.

Í fréttatilkynningu sem Einar sendi fjölmiðlum í gær kemur fram að til hafi staðið að HSA mundi reka öldrunarheimilið út árið 2009. Hins vegar hafi ekki þótt forsvaranlegt endurráða fimm starfsmenn að loknum sumarleyfum til að sinna aðeins tveim vistmönnum, en ekki var búist við að fleiri sneru aftur úr sumarleyfinu. Þar kemur jafnframt fram að aðsókn að heimilinu hafi minnkað talsvert frá því að HSA tók við rekstri þess í ársbyrjun 2008.

Aðspurður hvort honum hafi þótt heppilegt að kynna vistmönnum og aðstandendum þessa ákvörðun þegar það var á leiðinni út úr dyrum í sumarleyfi segir Einar:

„Auðvitað er það ekkert heppilegt og eðlilegt að það hreyfi við fólki sem í hlut á. Það er hinn mannlegi þáttur."

Aðstandendum voru ekki kynnt nein úrræði til frambúðar fyrir ástvini sína er þeim var sagt frá lokun heimilisins. Einar segir þó unnið að undirbúningi úrræða fyrir þá tvo sem snúa til baka að loknu sumarleyfi. Enn eigi eftir að kynna þau úrræði fyrir vistmönnunum.

„Það er ekki búið að klára það mál. Við höfum sex vikur til þess og munum leysa það á þeim tíma," segir Einar og bendir á að stofnunin reki fleiri heimili með mjög góða þjónustu og geti því boðið upp á skjól.




Tengdar fréttir

Vistmönnum úthýst af elliheimili

„Ekki veit ég hvert hún móðir mín fer. Hún er heimilislaus eins og er, ég get ekki skilið annað," segir Guðbjörg Stefánsdóttir, en móðir hennar bjó að öldrunarheimilinu á Djúpavogi. Þegar Guðbjörg sótti móður sína í sumarfrí var þeim mæðgum tjáð að hún ætti ekki afturkvæmt. Öldrunarheimilinu yrði lokað vegna fjárskorts.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×