Viðskipti innlent

Langtímahorfur Marels góðar

Hörður Arnarsson, forstjóri Marel Food Systems hf.
Hörður Arnarsson, forstjóri Marel Food Systems hf.
„Próforma rekstrarhagnaður (EBIT) af kjarnastarfsemi félagsins var 8,5% af veltu á árinu 2008 en áætlanir höfðu gert ráð fyrir að hann yrði 9%. Frávikið myndaðist allt á fjórða ársfjórðungi og má rekja til áhrifa alþjóðlegu fjármálakreppunnar á sölustarfsemi félagsins. Til að bregðast við breyttum aðstæðum á mörkuðum hefur þegar verið gripið til umfangsmikilla aðgerða til að lækka rekstrarkostnað félagsins. Starfsfólki hjá fyrirtækjum okkar erlendis var m.a. fækkað um 300 í lok árs og er kostnaður vegna þess gjaldfærður á fjórða ársfjórðungi," segir Hörður Arnarsson, forstjóri Marel Food Systems hf, í tilkynningu. Langtímahorfur fyrirtækisins eru góðar.

Próforma sala Marel Food Systems og Stork Food Systems af kjarnastarfsemi fyrir árið nam 613,3 milljónum evra, sem er aukning um 4,4% samanborið við árið 2007, að fram kemur í tilkynningu.

Próforma rekstrarhagnaður ársins fyrir einskiptiskostnað var 51,9

milljónir evra, sem er 8,5% af sölu, samanborið við 41,5 milljónir árið áður og eykst því um 25% á milli ára.

„Vegna yfirtöku á Stork Food System fyrr á árinu skal, í samræmi við IFRS

staðla, endurmeta vörulager fyrirtækins við yfirtöku frá innkaupsverði upp í

áætlað útsöluverð. Þetta veldur einskiptis gjaldfærslu á fjórða ársfjórðungi að upphæð 9,8 milljónir evra sem hefur engin áhrif á sjóðstreymi félagsins. Einskiptiskostnaður vegna umfangsmikilla hagræðingaraðgerða var að upphæð 4 milljónir evra," segir í tilkynningunni.

Nettó vaxtaberandi skuldir fyrirtækisins eru 378,2 milljónir evra. Meðallíftími skulda er um fjögur ár. Eigið fé nam 286,8 milljónum evra og eiginfjárhlutfall var 31,1% í lok árs 2008.

Áætlanir félagsins gera ráð fyrir að velta félagsins á árinu 2009 dragist saman um 4 til 6%. Áætlað er að rekstrarhagnaður verði 10 til 12% í samræmi við markmið félagsins á seinni hluta ársins. „Mat okkar á sterkum undirliggjandi vexti í iðnaðargreininni er óbreytt. Langtímahorfur fyrirtækisins eru góðar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×