Viðskipti innlent

Actavis í viðskiptastríð við lyfjarisan Pfizer

Actavis hefur sett í gang einhverja mest áberandi viðskiptaáskorun í Vestur-Evrópu á hendur lyfjarisanum Pfizer. Viðskiptastríðinu er beint gegn best selda einkaleyfisvarða lyfi Pfizer.

Þetta segir í umfjöllun blaðsins Financial Times um þá ákvörðun Actavis að senda á markað á Spáni 30 milljónir taflna af Atorvastatin Magnesium ódýru samheitalyfi sem keppa á við lyfið Lipitor sem læknar ávísa gegn of lágu kólerteróli í blóðinu.

Financial Times segir að Actavis setji sitt lyf á markaðinn tveimur árum áður en einkaleyfið fyrir Liptor rennur út á vestrænum mörkuðum og að um verulega ógnun sé að ræða í garð Pfizer. Hingað til hefur Pfizer varst ódýrum samheitalyfjum sem beint er gegn eigin lyfjum fyrir dómstólum víða um heiminn.

Blaðið ræðir við Guðbjörgu Eddu Eggertsdóttur aðstoðarforstjóra Actavis sem segir að útgáfa Actavis af lyfinu hafi verið samþykkt af lyfjaeftirlitum í 10 Evrópulöndum og að það sé alveg jafnöruggt og Lipitor.

Í yfirlýsingu frá Pfizer segir að Atorvastatin Magnesium sé öðruvísi salt en atorvastatin calsium sem Lipitor byggir á og að Pfizer muni verja réttindi sín með öllum ráðum.

Actavis setti sína útgáfu af atorvastatin fyrst á markað á Íslandi árið 2006 en hefur síðan selt það til 14 landa þar á meðal Úkraníu, Montenegro og Hong Kong. Guðbjörg Edda segir að nú sé félagið með fleiri markaði í Evrópu í sigtinu þar á meðal Noreg.

Financial Times segir að samheitalyfjafyrirtæki notfæri sér oft eldri útgáfur af lögum um einkaleyfi þar sem aðferðin við lyfjagerðina var varin með lögum en ekki innihald þeirra.

Sala Pfizer á Lipitor á heimsvísu nam 12,4 milljörðum dollara í fyrra og það er best selda lyfið á Spáni þar sem salan nam 575 milljónum dollara í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×