Viðskipti innlent

Bankastjórar gömlu bankanna fengu 3200 milljónir í laun

Sjö bankastjórar gömlu bankanna fengu yfir þrjúþúsund og tvöhundruð milljónir króna í laun, hlunnindi og bónusa á fimm árum. Sýnir veruleikafirringu manna í bankakerfinu segir Ólafur Ísleifsson hagfræðingur sem hvetur fyrrum bankastjóra til að feta í fótspor Bjarna Ármannssonar og skila einhverju til baka.

Fréttastofa rýndi í dag í ársskýrslur gömlu bankanna þriggja þar sem liggja fyrir upplýsingar um laun, hlunnindi og bónusa bankastjóranna á árunum 2003 til og með 2007. Við lögðum tölurnarnar saman og birtum þær hér strípaðar, það er, þær eru ekki uppreiknaðar til núvirðis.

Sólon Sigurðsson hjá Kaupþingi fékk fyrir tvö ár rúmar 104 milljónir króna. Lárus Welding fékk á einu ári hjá Glitni 376 milljónir króna. Fimm þeirra voru bankastjórar öll árin. Af þeim er Halldór J. Kristjánsson hjá Landsbankanum lægstur með samtals röskar fjögur hundruð milljónir. Hinn Landsbankastjórinn, Sigurjón Þ. Árnason, er næstlægstur með rúmar 467 milljónir. Þriðji launahæsti bankastjórinn var Hreiðar Már Sigurðsson hjá Kaupþingi með tæpar 487 milljónir. Sigurður Einarsson Kaupþingi, gerði hundrað milljónum betur og var með rífar 590 milljónir. Bjarni Ármannsson hjá Glitni trónir svo á toppnum, með rúmar 782 milljónir króna. Laun hans rösklega tífölduðust á þessum fimm árum.

Samanlagt voru bankastjórarnir sjö með tæplega 3213 milljónir króna í laun fyrir fimm ár. Varkárustu spámenn segja skuldir ríkissjóðs vegna bankahrunsins verða 145 sinnum hærri.

Launakóngurinn í þessum hópi, Bjarni Ármannsson, ákvað að skila hluta af sínum launum til baka.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×