Viðskipti innlent

Ísland með lökustu lífskjörin á Norðurlöndunum

Greining Íslandsbanka segir ljóst að í ár og næstu ár verður Ísland það Norðurlandanna sem býður íbúum sínum lökustu efnahagslegu lífskjörin a.m.k. samkvæmt mælingu á ákveðinni vísitölu hjá Evrópsku hagstofunni.

 

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að ein vinsælasta hagtalan á vef Evrópsku hagstofunnar (Eurostat) er vísitala sem lýsir því hvar best sé að búa í efnahagslegu tilliti.

 

Vísitalan segir til um hvernig landsframleiðsla á mann hefur verið að þróast leiðrétt fyrir verðlagsþróun í einstökum löndum. Vísitalan er stillt af þannig að sé hún yfir 100 er kaupmáttur landsframleiðslunnar í viðkomandi landi meiri en í ESB löndunum að meðaltali. Hið gagnstæða gildir ef vísitalan er lægri en 100.

 

Ísland hefur á undanförnum árum, a.m.k. fram á árið í ár, getað boðið íbúum sínum upp á efnahagsleg lífskjör sem eru umfram það sem gengur og gerist í ESB löndunum að meðaltali. Ofangreind vísitala stóð þannig í tæplega 119 í fyrra og á svipuðum slóðum og norrænu löndin að Noregi undanskildu. Í Danmörku var vísitalan ríflega 118 í fyrra, í Svíþjóð stóð hún í ríflega 121 og í Finnlandi 115. Tölurnar fyrir Noreg eru hins vegar litaðar af mikilli olíuframleiðslu, og er vísitalan hjá þeim því afar há í þessum samanburði.

 

Ísland hefur samkvæmt þessum mælikvarða getað boðið íbúum sínum efnahagsleg lífgæði sem eru betri en þau sem finnast í ýmsum löndum í mið-Evrópu s.s. Ítalíu og Frakklandi.

 

Þrátt fyrir það að efnahagsleg lífskjör hér á landi dali nú nýtur landinn þeirrar góðu stöðu sem var fyrir kreppuna. Lettland og Litháen hafa t.d. þurft að glíma við mikinn samdrátt í sínu efnahagslífi undanfarið. Það sem gerir stöðu mála þar hins vegar enn erfiðari eru þau lélegu efnahagslegu lífskjör sem þar voru fyrir. Var ofangreind vísitala 56 í fyrra í Lettlandi og 61 í Litháen.

 

Af öðrum löndum sem eru lág á þessum lista má nefna Króatíu með 63, Slóveníu með 90, Rúmeníu með 46, Pólland með 58, Ungverjaland með 63 og Möltu með 76. Afar ólíklegt er að kreppan hér á landi verði svo djúp að hún sendi efnahagsleg lífsgæði hér á landi niður í það sem er í þessum löndum. Hún gæti hins vegar fært stöðu landans hvað þetta varðar niður að meðaltali ESB ríkjanna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×