Viðskipti innlent

Heildaraflinn í ágúst minnkar um 11,9% milli ára

Heildarafli íslenskra skipa í nýliðnum ágústmánuði, metinn á föstu verði, var 11,9% minni en í ágúst 2008. Það sem af er árinu hefur aflinn aukist um 5,7% miðað við sama tímabil 2008, sé hann metinn á föstu verði.



Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að aflinn í ágúst 2009 var 112.550 tonn samanborið við 142.123 tonn í sama mánuði árið áður.

 

Botnfiskafli dróst saman um rúm 3.000 tonn frá ágúst 2008 og nam tæpum 32.000 tonnum. Þar af var þorskaflinn tæp 13.000 tonn, sem var tæpum 4.000 tonnum meira en árið áður. Ýsuaflinn nam tæpum 6.000 tonnum sem er um 3.000 tonnum minni afli en í ágúst 2008. Ufsaaflinn dróst saman um 2.000 tonn á milli ára og nam um 6.000 tonnum en 3.000 tonn veiddust af karfa, sem er um 1.600 tonnum minna en í ágúst 2008.

 

Afli uppsjávartegunda nam tæpum 78.000 tonnum sem er um 26.000 tonnum minni afli en í ágúst 2008. Síldaraflinn stóð nokkurn vegin í stað milli ára og nam rúmum 63.000 tonnum. Um 13.000 tonn veiddust af makríl, sem er tæpum 27.000 tonnum minni afli en í ágúst 2008.

 

Flatfiskaflinn var tæp 2.000 tonn í ágúst og jókst um 192 tonn frá fyrra ári. Skel- og krabbadýraafli nam 851 tonni samanborið við 1.158 tonna afla í ágúst 2008.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×