Viðskipti innlent

Deutsche Bank: Ísland í betri stöðu en Írland

Sérfræðingar Deusche Bank telja að Ísland sé í betri stöðu en Írland til að ná sér út úr kreppunni. Þetta kemur fram í minnisblaði frá bankanum sem ber yfirskriftina: "Írland v Ísland: Er munurinn í rauninni aðeins eitt orð?"

Greint er frá þessu í Alphaville dálki blaðsins Financial Times. Minnisblað Deutsche Bank hefst á sögulegum samanburði milli þjóðanna tveggja og því sem þær eiga sameiginlegt. Meðal annars er bent á að þjóðirnar séu mjög líkar í útliti þar sem íslenskir víkingar hafi einatt tekið írskar stúlkur með sér heim úr ránsferðum sínum til Írlands og Skotlands.

"Augljósasti munurinn á stöðu þjóðanna í dag er að aðild Írlands að ESB gerði það að verkum að landið hafði aðgang að fjármagni til að aðstoða bankakerfið og ríkissjóð. Þetta gerði Írlandi kleyft að forast gengishrunið sem Ísland lenti í, versnandi stöðu einkageirans hvað skuldabyrðar varðar og setningu víðtækra gjaldeyrishafta," segir í áliti bankans.

Nú hinsvegar gæti aðild Írlands að evrusvæðinu verið eitt af þeim atriðum sem standa í vegi fyrir efnahagbata.

Deutsche Bank bendir á að greinendur segi að fall íslensku krónunnar hafi aðstoðað landið við að ná aftur hluta af samkeppnishæfni sinn. Á móti er Írland fast á evrusvæðinu og getur ekki fellt gengi gjaldmiðls síns.

Deutsche Bank segir að fljótandi gengi krónunnar sem var mikill skelfir á síðasta ári gæti orðið vinur Íslands. Náttúruleg auðæfi og aðildarumsókn Íslands að ESB leiði til þess að landið eigi möguleika á að ná sér snögglega að nýju á næstu eina eða tveimur árum.

Á móti berst Írland við að auka samkeppnishæfni sína og leitar að nýju viðskiptalíkani. Þar sem stöðnun ríki og hætta sé að verðhjöðnun gæti reynst æ erfiðara að greiða niður stöðugt vaxandi skuldir.

Út frá þessi ályktar Deutche Bank að þótt áhættan fyrir efnahagslíf Íslands sé mikil eru jákvæðu atriðin mun augljósari en í dæmi Írlands.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×