Viðskipti innlent

Verðbólguþrýstingur fer ört minnkandi

Þrátt fyrir talsverða hækkun vísitölu neysluverðs (VNV) nú vegna útsöluloka og fjörkipps í húsnæðisliðnum er ljóst að verðbólguþrýstingur fer ört minnkandi. Innlendur kostnaðarþrýstingur er lítill, gengi krónu hefur verið tiltölulega stöðugt undanfarna mánuði og sömu sögu má segja um hrávöruverð erlendis.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að sem dæmi um þetta nemur hækkun vísitölunnar 1,5% síðustu þrjá mánuði, sem jafngildir 6,1% verðbólgu á ársgrundvelli. Raunstýrivextir Seðlabankans eru því klárlega jákvæðir á þann mælikvarða.

„Sú skoðun okkar er óbreytt að í hönd fari mánuðir með mun minni hækkun VNV en í sömu mánuðum í fyrra. Frá september til desember í fyrra hækkaði vísitala neysluverðs um 5,5%. Hækkunin í ár verður mun minni eða 0,7%. Ársverðbólga ætti því að lækka hratt á þessum tíma og vera komin í eða undir 6% um áramótin, nema því aðeins að gengi krónu lækki verulega á næstu mánuðum," segir í Morgunkorninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×