Viðskipti innlent

Nýsköpunarsjóður tapaði 237 milljónum í fyrra

Afkoma Nýsköpunarsjóðs (NSA) á árinu 2008 var í heild neikvæð um 237 milljónir króna. Ávöxtun af fjárvörslu sjóðsins var neikvæð um 0,9% á árinu.

Í tilkynningu segir að framlag á afskriftareikning nam samtals 342 milljónum króna. Heildareignir um áramótin voru 4.071 millj.kr. og þar af voru veltufjármunir 2.030 millj.kr. og fastafjármunir 2.042 millj.kr. Eigið fé í árslok var 3.831 millj.kr.

Það kom fram í ávarpi Finnboga Jónssonar, framkvæmdastjóra NSA, að ætla megi að í landinu séu starfandi vel á annað hundrað fyrirtæki sem flokka má undir sprotafyrirtæki.

„Sá árangur sem mörg nýsköpunarfyrirtæki hafa sýnt á undanförnum árum staðfestir hvaða árangri má ná í atvinnuuppbyggingu á Íslandi í formi fjölbreyttrar flóru smærri fyrirtækja þar sem mannauðurinn er orkan og hreyfiaflið. Eitt mikilvægasta verkefnið í efnahagsmálum á komandi mánuðum og árum er að hlúa að og styðja við uppbyggingu þessara fyrirtækja. Verði það gert mun verða til fjöldi nýrra starfa og um leið auknar gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið." sagði Finnbogi í ávarpi sínu.

Í árslok 2008 var NSA eignaraðili í 32 fyrirtækjum eða í fjórðungi þeirra sem fjárfest hefur verið í frá upphafi og nemur kaupverð hlutafjár í þessum félögum miðað við verðlag á ársbyrjun 2009 um 2,4 milljörðum króna. Lán nema um 600 milljónum króna þannig að heildarfjárfesting frá NSA í þessum félögum nemur alls um 3 milljörðum króna.

Velta þessara fyrirtækja á árinu 2008 var um 6 milljarðar króna og jókst hún um 50% frá árinu á undan. Áætluð velta þeirra árið 2009 nemur um 9 milljörðum króna. Í maí á þessu ári starfa hjá þeim 470 manns.

Á ársfundinum kom fram að eitt af þeim fyrirtækjum sem Nýsköpunarsjóður hefur verið þátttakandi í nánast frá upphafi, Nikita ehf, náði þeim áfanga á síðasta ári að vera með meir en 1 milljarð króna í ársveltu. Forsvarsmönnum Nikita voru afhent hvatningarverðlaunin, „Milljarðamærin" af þessu tilefni, listaverk eftir Steinunni Þórarinsdóttur, myndlistamann.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×