Viðskipti innlent

Efnahagsbrotadeild rannsakar Sterling-hringekjuna

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Efnahagsbrotadeild rannsakar nú hvort að Pálmi Haraldsson í Fons og Hannes Smárason hafi grætt milljarða á kostnað hluthafa í FL Group í tengslum við viðskipti á danska flugfélaginu Sterling.

Við húsleit skattrannsóknarstjóra hjá Stoðum, áður FL Group, undir lok síðasta árs fundust gögn sem urðu kveikjan að rannsókninni.

Fons, eignarhaldsfélag Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, keypti Sterling í mars árið 2005 fyrir um 5 milljarða króna. Stuttu síðar keypti Fons Maersk Air og sameinuðust félögin í september sama ár. Kaupverðið var ekki gefið upp en greint var frá því í dönskum miðlum að A.P. Möller Mærsk hefði þurft að leggja Sterling til um 3, 5 milljarð króna.

Sjö mánðum eftir að Fons festi kaup á flugfélaginu var það selt til FL Group fyrir 14,6 milljarða. Söluhagnaður Sterling var um þrefaldur á þessum 7 mánuðum. Í desember árið 2006 keypti Northern Travel Holding flugfélagið fyrir 20 milljarða. Stærstu eigendur Northern Travel Holding voru FL Group og Fons.

Bókhaldslegt verðmæti Sterling hafði því fjórfaldast á einu og hálfu ári þrátt fyrir bága fjárhagsstöðu félagsins. Í lok september 2008 keypti Fons Northern Travel Holding með Sterling innanborðs sem var svo lýst gjaldþrota mánuði síðar.

Samkvæmt heimildum fréttastofu rannsakar Efnahagsbrotadeild nú hvort að Sterling hafi vísvitandi verið keypt á yfirverði. Grunur leikur á að einhvers konar samningur hafi legið fyrir milli Hannesar og Pálma um að hagnast persónulega á þessum viðskiptum með Sterling á kostnað hluthafa FL Group.

Meðal þess sem er til rannsóknar er þriggja milljarða króna millifærsla sem Hannes lét flytja af reikningum FL Group til Kaupþings í Lúxemborg árið 2005. Upphæðin var endurgreidd um tveimur mánuðum síðar með vöxtum en nú beinist rannsóknin að því hvort að millifærslan hafi runnið til Pálma Haraldssonar til að kaupa Sterling.

Fyrir liggur að þáverandi stjórn FL Group hafði ekki vitneskju um millifærsluna og gekk stór hluti hennar, ásamt þáverandi forstjóra Ragnhildi Geirsdóttur, út á svipuðum tíma og upp komst um málið.

Efnahagsbrotadeild og skiptastjóri þrotabús Fons munu eiga fund bráðlega og fara yfir stöðu mála.

Pálmi Haraldsson sagði málið algjörlega sér óviðkomandi þegar fréttastofa náði tali af honum í dag. Ekki náðist í Hannes Smárason.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×