Handbolti

Ólafur: Það yrði fullkominn endir að vinna Meistaradeildina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Stefánsson skoraði 6 mörk í fyrri leiknum.
Ólafur Stefánsson skoraði 6 mörk í fyrri leiknum. Mynd/GettyImages

Ólafur Stefánsson spilar í dag sinn síðasta leik með spænska liðinu Ciudad Real þegar liðið mætir Kiel í seinni úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Ólafur er á leiðinni til þýska liðsins Rhein Neckar Löven eftir að hafa spilað í sex ár með spænska liðinu.

„Við munum gefa allt okkar í þennan leik og ætlum að reyna að hefna tapsins í fyrri leiknum. Við gerðum mistök í þeim leik og spiluðum ekki okkar besta leik. Nú verðum við búnir að laga það sem miður fór og við getum vel unnið þennan leik," sagði Ólafur Stefánsson í viðtali á heimasíðu evrópska handboltasambandsins.

Ólafur skoraði síðasta mark fyrri leiksins og minnkaði muninn í fimm mörk. Kiel vann leikinn 39-34 og Ciudad þarf því að vinna leikinn í dag með fimm mörkum skori Kiel 33 mörk eða minna en skori Kiel 35 mörk eða meira þá þarf Ciudad-liðið að vinna með sex mörkum.

Ciudad Real vann Meistaradeildina í fyrra þar sem Ólafur skoraði 12 mörk í seinni leiknum þar sem liðið vann eftirminnilegan sigur í Kiel eftir að hafa tapað fyrri leiknum á heimavelli.

„Ég mun taka margt með mér frá Spáni. Minningar um titla, gott fólk og góðan mat auk mikillar reynslu sem ég hef öðlast hér," segir Ólafur aðspurður um veruna á Spáni.

„Fyrstu tvö árin voru erfið en síðustu fjögur árin hafa nánast verið einn samfelldur draumur. Það yrði síðan fullkominn endir að vinna Meistaradeildina," sagði Ólafur sem vann Meistaradeildina með Ciudad Real 2006 og 2008. Hann vann hana einnig með SC Magdeburg árið 2002 og getur því orðið Evrópumeistari í fjórða sinn í dag.

 

Leikurinn í dag hefst klukkan 16.00 að íslenskum tíma og verður í beinni útsendingu í Sjónvarpinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×