Viðskipti innlent

Töluvert harðnar á dalnum hjá ríkissjóði

Greiðsluuppgjör ríkissjóðs eftir fyrstu tíu mánuði ársins liggur nú fyrir. Samkvæmt uppgjörinu nam handbært fé frá rekstri um 24,2 milljarðar kr., sem er 31,8 milljarða kr. lakari útkoma heldur en á sama tíma í fyrra.

Innheimtar tekjur voru 14,4 milljarðar kr. hærri en á sama tíma árið 2007 en greidd gjöld 59,3 milljarða kr. hærri.

Greidd gjöld nema 355,8 milljarðar kr. sem er 20% aukning frá fyrra ári. Mest aukning er vegna almannatrygginga- og velferðarmála, 18,8 milljarðar kr. Þar munar mest um lífeyristryggingar sem hækka um 10,1 milljarðar kr. á milli ára, barnabætur um 3 milljarðar kr. og vaxtabætur um 1,4 milljarðar kr. Heilbrigðismál hækka um 10,5 milljarðar kr. þar sem útgjöld vegna sjúkratrygginga og Landspítala aukast mest á milli ára.

Innheimtar tekjur ríkissjóðs námu 369 milljarðar kr. fyrstu tíu mánuði ársins sem er 4,1% aukning að nafnvirði. Skatttekjur og tryggingagjöld námu 334 milljarðar kr. sem samsvarar 3,7% aukningu að nafnvirði á milli ára. Á sama tíma hefur almennt verðlag hækkað um 10,7% og skatttekjur og tryggingagjöld hafa því dregist saman um 6,3% að raunvirði. Skattar á tekjur og hagnað námu um 129 milljarða kr. sem er 12,8% aukning frá sama tíma árið áður.

Þá dróst virðisaukaskattur í októbermánuði einum saman um 9,5% að nafnvirði en hann kemur af smásölu fyrir mánuðina júlí og ágúst. Af öðrum helstu liðum veltutengdra skatta er mestur samdráttur í vörugjöldum af ökutækjum, sem hafa verið stærsti liður vörugjaldanna undanfarin ár, eða 19,6% samdráttur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×